Fréttir

Ályktun aðalfundar félags yfirlögregluþjóna

3 maí. 2011

Ályktun aðalfundar Félags yfirlögregluþjóna haldinn á Egilsstöðum 30. apríl 2011 til Innanríkisráðherra.

Aðalfundur Félags yfirlögregluþjóna fagnar framlögðu frumvarpi til lögreglulaga enda er afar brýnt að lagarammi að skipulagi löggæslu í landinu verði ákveðinn og í föstum skorðum þannig að unnt sé að skipuleggja störf hennar til framtíðar.

Fundurinn harmar að ákvæði um útfærslu á eftirlaunatöku lögreglumanna, eins og það var lagt fram sem viðbótarskjal til Allsherjarnefndar við afgreiðslu hennar á vorþingi 2010, sé ekki í frumvarpi til breytinga á lögreglulögum. Fundurinn áréttar að þetta er ein af meginforsendum þess að hagræðing náist. Fundurinn vekur einnig athygli á því að ekkert liggur fyrir um fjármögnun breytinganna og nýrra yfirstjórna við ný embætti.

Félag yfirlögregluþjóna mótmælir því að í lögunum verði heimild til að fela sýslumönnum daglega lögreglustjórn. Telur fundurinn það stríða gegn markmiðum laganna um aðskilnað lögreglustjórnunar og sýslumanna. Fundurinn vekur athygli á því að þeir sem í raun fara með daglega stjórn lögregluliðanna, ekki hvað síst á landsbyggðinni, eru yfirlögregluþjónar.

Í framlögðu frumvarpi er felld út heimild til að ráða til lögreglustarfa menn sem ekki hafa lokið námi í Lögregluskólanum. Metnaður Félags yfirlögregluþjóna stendur til þess að ekki starfi aðrir í lögreglu en þeir sem lokið hafa fagnámi til slíks. Hins vegar vekur félagið athygli á þeirri hættu að ekki takist að manna einstök lögreglulið á sumarleyfistíma. Nú þegar eru nokkur lögreglulið í vandræðum með mönnun þar sem að skólagengnir lögreglumenn sækja ekki um afleysingastöður og þykir því ástæða til að vekja athygli á þessu atriði.

 

 

Til baka