Fréttir

Tveir sólarhringar til að afstýra verkföllum

3 maí. 2011

Í frétt á mbl.is í dag kemur fram að Magnús Pétursson ríkissáttasemjari hafi boðað landssambönd og aðildarfélög ASÍ til sáttafunda í húsnæði ríkissáttasemjar í dag og á morgun.  Á fundunum á að reyna til þrautar að koma í veg fyrir yfirvofandi verkföll.

 

Lítill sem enginn gangur hefur verið í kjaraviðræðum á milli ASÍ og SA frá því að upp úr sauð á milli aðila fyrir liðna helgi og fátt virðist nú geta komið í veg fyrir það að ASÍ hefji undirbúning verkfallsaðgerða.

Í viðtali við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ kemur fram að hann er svartsýnn á framhald kjaraviðræðna en eins og kunnugt er hafnaði ASÍ hugmyndum SA um gerð kjarasamnings til þriggja ára.

Björn Snæbjörnsson formaður Starfsgreinasambandsins segir, í sama viðtali, að undirbúningur sé á fullu fyrir atkvæðagreiðslu um boðun verkfalla.  Gert sé ráð fyrir því að kosið verði í næstu viku og verkfallsaðgerðir gætur þá hafist í síðari hluta maímánaðar.

Af þessu tilefni er rétt að vekja aftur sérstaka athygli lögreglumanna á ákvæði 24. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sem fjallar um afskipti lögreglu af vinnudeilum, en þar segir orðrétt:

„Lögreglu er óheimilt að hafa önnur afskipti af vinnudeilum en að halda þar, eins og annars staðar, uppi friði og afstýra skemmdum, meiðslum og vandræðum.“

 

Til baka