Fréttir

Samningur betri en gerðardómur – Ritstjórn Morgunblaðsins 25. ágúst

26 ágú. 2011

Ritstjórnarpistill Morgunblaðsins 25. ágúst 2011. Birt með góðfúslegu leyfi ritstjórnar Morgunblaðsins.

Þegar miklar óeirðir brutust út í Bretlandi fyrir skömmu, að því er virtist af litlu tilefni, var mjög um það rætt hvort gefa ætti hernum fyrirmæli um að fara út á strætin og styðja lögregluna í baráttunni. Það þykir yfirvöldum ekki fýsilegur kostur. Herinn er varnartæki landsins og á að bregðast við utanaðkomandi vá. En eins og umræðan sýndi þá getur hann einnig verið til þrautavara við óvenjulegar aðstæður innanlands, sem lögreglan ræður ekki við. Það hefur þýðingu fyrir þá sem gæta eiga friðar og öryggis þjóðar að vita af þess háttar baklandi. Tilvera þess þýðir að síður er reynt að brjóta lögregluna á bak aftur.

 

 

Flestar þjóðir búa við síðasta úrræði af því tagi. Ekki Ísland. Hér var að vísu lengi erlendur her í Keflavík, en enginn hefði mátt til þess hugsa að hann hefði nokkurt hlutverk í innri málum landsins. Í svokallaðri „búsáhaldabyltingu“, sem var ekki eins sjálfsprottin og látið var, komst þjóðin á ystu nöf. Hið fámenna lögreglulið var örugglega á endimörkum úthalds, sem löngu var farið út fyrir alla ramma. En það hafði staðið sig frábærlega og sýnt ótrúlega stillingu og festu. Jafnvel þeir sem síst skyldu gerðu verkefni hennar enn erfiðara en ella eins og menn muna. En lögreglan var bjargvættur þegar aðrir brugðust.

 

M.a. með vísun til öryggishlutverks lögreglunnar og eðlis hennar hefur hún ekki verkfallsrétt. Það er eðlileg skipan mála. Hún getur því ekki knúið á um leiðréttingu sinna mála með sama hætti og aðrir. En það þýðir einnig að yfirvöld mega síst af öllu notfæra sér það að lögreglumenn hafi veikari stöðu til að þrýsta á um að staða þeirra sé bætt, bæði hvað varðar kaup, kjör og almennan aðbúnað. Vissulega verða allir að gæta hófs í sínum kröfum við þær aðstæður sem nú eru uppi. Það virðast lögreglumenn hafa leitast við að gera. En ríkisvaldið verður á móti að leggja sig allt fram um það að tryggja að lögreglumenn dragist ekki aftur úr öðrum, sem eðlilegt er að þeir miði sig við.

 

Lögreglumenn hafa þegar verið of lengi án kjarasamnings. Viðsemjendur þeirra hafa dregið lappirnar. Mjög æskilegt hefði verið að ljúka deilum um þeirra kjör með samningum og forðast gerðardómsleiðina, sem nú virðist stefna í. Þá leið á eingöngu að fara í undantekningartilvikum, ef allt annað þrýtur.

Lögreglumenn mega ekki gjalda þess að vera án verkfallsréttar

Til baka