Fréttir

Ályktun fundar Lögreglufélags Akraness 26. september 2011

26 sep. 2011

Ályktun fundar Lögreglufélags Akraness 26. september 2011

Lögreglufélag Akraness mótmælir og fordæmir þá lítilsvirðingu sem stjórnvöld hafa sýnt lögreglumönnum í aðdraganda gerðardóms þann 23. september 2011. 

 

Lögreglufélag Akraness minnir á að hæstvirtur fjármálaráðherra taldi það nauðsynlegt og sjálfsagt að leiðrétta laun starfsmanna Stjórnarráðs Íslands en á sama tíma sýnir hann að hann telur það nauðsynlegt og sjálfsagt að leiðrétta ekki laun lögreglumanna sem þó hafa dregist verulega afturúr sambærilegum starfsstéttum í launum. Fjármálaráðherra ber ábyrgð á framferði starfsmanna fjármálaráðuneytis og framganga hans í aðdraganda gerðardóms er fordæmd sem og niðurstaða dómsins. 

 

Lögreglufélag Akraness krefst þess að til að draga úr því óréttlæti sem fellst í niðurstöðu gerðardóms verði álagsgreiðsla upp á 13.000 krónur felld að fullu inn í grunnlaun lögreglumanna frá og með 1. júní 2011. 

 

Lögreglufélag Akraness vekur athygli á þeirri staðreynd að laun lögreglumanna hafa dregist aftur úr viðmiðunarstéttum. Krefjast lögreglumenn þess að tekin verði til endurskoðunar röðun lögreglumanna í launatöflu og hún leiðrétt í samræmi við það.

 

Lögreglufélag Akraness vekur einnig athygli á því að fyrirhugaðar breytingar á embættaskipan á landsbyggðinni sem hafa það eina yfirlýsta markmið að lækka rekstrarkostnað embættanna, með fækkun yfirmanna, breyttri starfskipan og lækkun launa. Breytingar þessar koma til með að hafa veruleg áhrif, til hins verra, á fjárhagslega afkomu stórs hluta starfandi lögreglumanna á landsbyggðinni. 

 

Lögreglufélag Akraness lýsir því hér með yfir að það mun styðja allar aðgerðir sem stjórn Landssambands lögreglumanna kann að hefja í þágu bættra starfskjara lögreglumanna. Um leið hvetja lögreglumenn á Akranesi alla lögreglumenn til að sýna fulla samstöðu í öllum aðgerðum sem forysta okkar kann að hvetja til. 

Lögreglufélag Akraness

Til baka