Fréttir

Ekki sjálfgefið að stærri umdæmi lögreglu verði betri

14 okt. 2011

Í frétt frá 14. október s.l., í Helsingborgs Dagblad, sem hægt er að lesa í gegnum heimasíðu Landssambands sænskra lögreglumanna er fjallað um skipulagsbreytingar í lögreglu í suður Svíþjóð en þar horfa menn til þess að fækka og stækka umdæmi einstakra lögregluliða í þeim tilgangi að gera þau betur í stakk búin til að fást við verkefni sín.

 

 

Í fréttinni kemur hinsvegar fram – líkt og Landssamband lögreglumanna hefur reynt að benda á – að þvert á móti sé þessi leið ekki endilega sú rétta né besta til að efla löggæslu.  Þá segir einnig í fréttinni að lögreglan, í suður Svíþjóð, sé í enn auknari mæli – vegna niðurskurðar (lesist hagræðingar); fækkunar lögreglumanna o.fl. – farin að lenda í því að geta ekki sinnt þeim útköllum sem henni berast.  Sömu eða svipaðar fréttir hafa einnig borist frá hinum Norðurlöndunum án þess að slíkt hafi vakið neina sérstaka athygli fjölmiðla hér á landi frekar en þessi ákveðna frétt sem hér er fjallað um!

 

Hvernig skyldi þessum málum vera háttað hér á landi?  Ætli það séu til einhverjar opinberar tölur um það hversu mörgum verkefnum, sem lögreglu berast, hún getur ekki sinnt eða sinnir mun síðar en t.d. gerðist áður en ráðist var í þann gríðarmikla niðurskurð á fjárframlögum til löggæslu sem orðið hefur frá „bankahruni“?  Ætli starfsemi lögreglu sé komin að eða undir „öryggismörk“?  Undarlegt reyndar að velta slíkum mörkum fyrir sér þar sem löggjafinn hefur aldrei í ríflega 200 ára sögu löggæslu á Íslandi séð hjá sér neina þörf til að skilgreina öryggisstig á Íslandi né þjónustustig lögreglu!  Landssamband lögreglumanna er ekki í nokkrum vafa um það og hefur ekki verið um langa hríð að löggæsla á Íslandi er fyrir löngu síðan komin undir það sem hægt væri að flokka sem „öryggismörk“.  Slíkur hefur niðurskurðurinn verið á fjárframlögum til löggæslu mörg undanfarin ár.  Slík hefur fækkun lögreglumanna á Íslandi orðið síðan í byrjun árs 2007!

Til baka