Fréttir

Þingsályktun um grundvallarskilgreiningar lögreglu samþykkt

20 jún. 2012

Samþykkt var á Alþingi Íslendinga, í gær (þriðjudaginn 19. júní) þingsályktun Gunnars Braga Sveinssonar (F) o.fl. (þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks) um „Grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland“.
Í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar þingsins voru gerðar smávægilegar breytingar á þingsályktuninni sem lutu að því að skilgreina nánar hverjir skyldu eiga fulltrúa, og hve margir, í þeirri nefnd sem ætlað er að framkvæma þá vinnu sem lögð er til með ályktuninni sem og skiladag þeirrar vinnu.  Að öðru leyti lagði nefndin til, með meirihluta, að ályktunin yrði samþykkt.
Hér er á ferðinni, að mati LL, þjóðþrifamál fyrir löggæslu á Íslandi enda kemur það fram í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar að allir þeir sem kallaðir voru fyrir nefndina hafi verið á einu máli um að fara þyrfti í vinnu sem þessa.  Þá munu einnig þær umsagnir, sem bárust nefndinni um þingsályktunina, hafa verið jákvæðar.  Hægt er að lesa umsagnirnar hér.
Það sem fram kemur í þingsályktunartillögu þessari eru atriði sem LL hefur talað linnulaust fyrir allt frá árinu 2008 og jafnvel fyrr þ.e:
  1. Skilgreining á öryggisstigi fyrir Ísland;
  2. Skilgreining á þjónustustigi lögreglu;
  3. Skilgreining á mannaflaþörf lögreglu (út frá skilgreiningum í tl. 1. og 2.) og
  4. Skilgreining á fjárveitingum til lögreglu (út frá skilgreiningum í tl. 1. – 3.).

Til baka