Fréttir

Of langt gengið í niðurskurði!

1 ágú. 2012

Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, tjáði sig í viðtali við mbl.is um niðurskurð liðinna ára til löggæslumála, í kjölfar útkomu ársskýrslu embættisins fyrir árið 2011.  Um þetta voru fluttar tvennar fréttir á mbl.is sem hægt er að lesa hér og hér.  Þá var einnig viðtal við lögreglustjórann í hádegisfréttum RÚV sem hægt er að hlusta á hér.
 
Allt saman gott og blessað og að sama skapi ljómandi gott að fleiri eru farnir að segja hlutina eins og þeir eru og kalla þá réttum nöfnum en það sem fram kemur í máli lögreglustjórans í ofangreindum fréttum er ekkert umfram það sem LL hefur haldið fram mörg undanfarin ár og það m.a.s. fyrir hið svokallaða „bankahrun“!
 
Það sem vert er hinsvegar að hafa í huga, í þessu sambandi, er sú staðreynd að það sem við blasir og kemur fram í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, er alls ekki einskorðað við það lögregluembætti og staðreynd mála er einfaldlega sú að mörg önnur embætti eru miklu verr stödd fjárhagslega og er kemur að fjölda lögreglumanna en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
 
Þá vekur það einnig sérstaka athygli, í tengslum við þennan fréttaflutning mbl.is, að engin fréttastofa eins einasta fjölmiðils í landinu, utan síðdegisþátt Bylgjunnar „Reykjavík síðdegis“ hafði fyrir því að æskja viðtals við forystu Landssambands lögreglumanna en framkvæmdastjóri LL, Steinar Adolfsson, var í símaviðtali við þáttinn í dag, sem hægt er að hlusta á hér.

Til baka