Fréttir

Ríkislögreglustjóri Noregs segir af sér

17 ágú. 2012

Í kjölfar útkomu Skýrsla 22. júlí nefndarinnar, sem fór yfir hvað gerðist þann 22. júlí 2011 sem og viðbrögð lögreglu þegar Anders Behring Breivik sprengdi öfluga sprengju í miðborg Oslóar og í framhaldinu myrti fjölda ungmenna í Útey hefur ríkislögreglustjóri Noregs (Politidirektor), Öystein Mæland sagt af sér störfum.  Þetta tilkynnti hann seint í gærkvöldi en í gærdag sat hann á fundi í Gardemoen með öllum lögreglustjórum (27) Noregs þar sem hann fékk ótvíræðan stuðning þeirra til áframhaldandi starfa sem ríkislögreglustjóri.

 

Nokkuð háværar raddir hafa birst í norskum fjölmiðlum, undanfarna daga, þess efnis að ríkislögreglustjórinn, lögreglustjórinn í Osló – Anstein Gjengedal – sem og lögreglustjórinn í Nordre Buskerud (þar sem Útey liggur) – Sissel Hammer – auk forsætisráðherrans Jens Stoltenberg og dómsmálaráðherrans Grete Faremo ættu öll að segja af sér.

Bæði forsætisráðherrann og dómsmálaráðherrann hafa lýst sig vanhæf til að fjalla um það hvort ríkislögreglustjórinn ætti að segja af sér eður ei vegna náinna tengsla sinna við hann en ríkislögreglustjórinn var svaramaður Jens Stoltenberg þegar hann gifti sig árið 1987 og vann að auki sem ritari núverandi dómsmálaráðherra árin 1994 – 1996 þegar hún vann í dómsmálaráðuneytinu.

 

Í skýrslu 22. júlí nefndarinnar kemur fram gríðarlega hörð gagnrýni á marga þætti í starfsemi norsku lögreglunnar og hefur Jens Stoltenberg þegar gefið það út að farið verði í allsherjar skoðun á starfsemi og uppbyggingu norsku lögreglunnar sem miði að því að koma í veg fyrir, með öllum ráðum, að atburðir líkir þeim sem gerðust þann 22. júlí 2011, geti nokkru sinni gerst aftur.

 

Ljóst er að Landssamband norskra lögreglumanna hefur um árabil bent á ýmis þau atriði, sem gagnrýnd eru í skýrslu 22. júlí nefndarinnar, sem atriði sem betur mættu fara í rekstri lögreglunnar s.s. fjölda lögreglumanna, menntun lögreglumanna, fjárveitingar til lögreglu, útbúnað lögreglu, starfshæfiskröfur æðstu stjórnenda í lögreglu o.fl. o.fl.

 

Hægt er að fylgjast með fréttaumfjöllun um þessi mál á heimasíðu Verdens Gang (VG) sem og á heimasíðu Landssambands Norskra lögreglumanna.

Til baka