Fréttir

Heimsóknir ríkislögreglustjórans til lögregluembættanna

29 sep. 2012

Um þessar mundir standa yfir heimsóknir ríkislögreglustjórans til allra lögregluembætta landsins.  Nú þegar hefur hann heimsótt Austurland, Vestfirði, Selfoss og Akureyri svo dæmi séu tekin.

 

Til stendur að ríkislögreglustjórinn heimsæki öll lögregluembætti landsins en fyrirkomulag fundanna hefur verið þannig að farið er á ákveðinn þéttbýliskjarna og embætti í kringum þann þéttbýliskjarna hvött til að senda lögreglumenn sína til fundanna.  Þannig hafa verið send út boð, fyrir allnokkru síðan, á alla lögreglustjóra landsins þess efnis að fundirnir standi til, hvar þeir verði haldnir og hvenær og sérstök áhersla lögð á það að viðkomandi lögreglustjóri auglýsi fundina í tíma meðal sinna starfsmanna og hvetji þá til að sækja fundina. 

 

Á fundunum gefst tækifæri til að koma á framfæri, miliðalaust, spurningum til ríkislögreglustjórans um hvaðeina er varðar rekstur viðkomandi embættis, bílaflota lögreglunnar, einkennisfatnað og hvaðeina annað sem brennur á vörum lögreglumanna.  Þannig hvetur ríkislögreglustjórinn til opinna skoðanaskipta við lögreglumenn um allt land.

 

LL hvetur alla lögreglumenn til að sækja fundina, enda eru þeir hugsaðir til að lögreglumenn geti átt bein og hreinskiptin skoðanaskipti við ríkislögreglustjórann.

Til baka