Fréttir

Slæmt ástand löggæslumála!

17 nóv. 2012

Fimmtudaginn 15. nóvember 2012 var sérstök umræða á Alþingi Íslendinga um skipulagða glæpastarfsemi og stöðu lögreglunnar.  Málshefjandi var Jón Gunnarsson (S) og fyrir svörum var Ögmundur Jónasson (VG), innanríkisráðherra.  Hægt er að sjá umræðurnar hér.

 

Auk ofangreindra tóku þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir (F), Björgvin G. Sigurðsson (Sf), Margrét Tryggvadóttir (Hr), Tryggvi Þór Herbertsson (S), Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg), Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) og Þór Saari (Hr) þátt í umræðunni.

 

Komið var inn á ýmis atriði í þessari umræðu s.s. mismunandi stöðu lögregluembætta landsins til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi, fækkun lögreglumanna undanfarin ár, minnkandi fjárheimildir til reksturs lögreglu, forvirkar rannsóknarheimildir, ástand löggæslumála á Suðurlandi, norðurlandi, Þingeyjarsýslum o.fl. stöðum.  Þá var einnig komið inn á skýrslu norsku 22. júlínefndarinnar sem út kom þann 13. ágúst s.l. en rétt fyrir útkomu hennar kom fram í fréttum að verulega skorti á það að fjöldi lögreglumanna hér á landi væri á við það sem gerist í Noregi.  Í kjölfar þessarar fréttar kom fram í máli Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, að nú væri botninum náð og að hann vonaðist til að leiðin lægi upp á við þaðan (2. ágúst 2012) í frá.

 

Það sem hvað hæst stendur upp úr umræðunni er sú staðreynd að loksins fékkst staðfesting á því að fjárheimildir til reksturs lögreglu í landinu hafa lækkað um sem nemur 2,8 milljörðum króna frá því um árið 2008.  Lögreglumönnum hefur á sama tíma fækkað um a.m.k. áttatíu (80).  Sé horft til þeirrar miklu aukavinnu sem unnin var í lögreglu á árum áður, fjölda lögreglumanna þá m.v. stöðuna í dag er ljóst að fækkun lögreglumanna hefur orðið umtalsvert meiri en 80 stöðugildi, sé horft til ársverka í lögreglu!

 

Umræðan hefur vakið nokkra athygli fjölmiðla svo sem sjá má hér og hér.  Auk þessa hefur verið fjallað um umræðuna í prentmiðli Morgunblaðsins. 

 

Rétt er að taka það fram hér að það sem fram kom við þessa umræðu á Alþingi Íslendinga, um ástand löggæslumála, er ekkert sem Landssamband lögreglumanna og einstaka svæðisdeildir þess hafa ekki margítrekað bent á áður!  Það sem hinsvegar stendur upp úr í þessari umræðu er viðurkenning innanríkisráðuneytisins á þeirri staðreynd að fjárveitingar til löggæslumála hafa dregist saman um tæpa þrjá milljarða króna undanfarin ár og lögreglumönnum hefur fækkað um nálega tíu (10) prósent frá árinu 2007!  Þá er rétt að hafa það í huga að fjárheimildir til reksturs lögreglu hófu að dragast saman fyrir hið svokallaða bankahrun sem varð hér á haustmánuðum 2008!

 

Til frekari fróðleiks er rétt að rifja hér upp orð Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi forsætisráðherra, er hún var í stjórnarandstöðu árið 2001 en þau má lesa hér og hér.

Til baka