Fréttir

Grafalvarlegt ástand löggæslumála

9 mar. 2013

Á vefmiðlinum dv.is þann 7. mars s.l. birtist frétt undir fyrirsögninni „Segir niðurskurð hafa kostað mannslíf á Kópaskeri“ en þar er vísað til þess er karlmaður varð úti á Kópaskeri að afloknu þorrablóti.  Í fréttinni er haft eftir lögreglumanni á Þórshöfn að koma hefði mátt í veg fyrir lát mannsins, ef lögregla hefði haft tök á því að vera á staðnum en vegna manneklu og fjárskorts, vegna niðurskurðar til löggæslu undanfarinna ára, hafði lögregla ekki viðveru á Þórshöfn í kringum umrætt þorrablót.  Frétt dv.is er tilkomin vegna fréttar vikublaðsins Akureyri um sama mál en sú frétt birtist á vefmiðli fréttablaðsins Akureyri þann 7. mars s.l.

 

Þann 8. mars s.l. birtist svo frétt, með viðtali við lögreglustjórann á Húsavík, vegna ofangreindrar fréttar dv.is en þar segir lögreglustjórinn ómögulegt að fullyrða að mannekla hafi kostað mannslíf.  Á sama tíma og lögreglustjórinn heldur því fram að ómögulegt sé að fullyrða að mannekla hafi kostað mannslíf lýsir hann ástandi löggæslumála í þessu stærsta löggæsluumdæmi landsins með þeim hætti að í raun má aftur fullyrða að það sem fram kom í frétt dv.is þann 7. mars s.l. sé einfaldlega rétt!

 

Landssamband lögreglumanna hefur um árabil varað við því ástandi sem nú er í lögreglu vegna þess gengdarlausa niðurskurðar sem orðið hefur til löggæslumála undanfarin ár.  LL hefur m.a. – ítrekað – bent á þá staðreynd að niðurskurður til löggæslumála muni á endanum koma mjög alvarlega niður á öryggi landsmanna og jafnvel kosta mannslíf!

 

Því ástandi sem nú er uppi í löggæslumálum þjóðarinnar er afar vel lýst í skýrslu innanríkisráðherra um „Stöðu lögreglunnar“ sem gerð var opinber undir lok s.l. árs.

 

Undanfarið hafa einnig birst alvarlegar fréttir af ástandi mála hjá ríkissaksóknara þar sem fram kemur að lágar fjárveitingar til embættisins komi niður réttaröryggi.  Ríkissaksóknari hefur varað ríkisstjórn Íslands og forsætisráðherra við því ástandi sem skapast hefur í löggæslumálum þjóðarinnar og réttarvörslukerfinu sbr. bréf ríkissaksóknara frá 14. maí 2009.

 

Staðreynd málsins er afar einföld.  Lögreglan í dag er einfaldlega engan vegin í stakk búin til að sinna lögbundnum skyldum sínum eins og þær eru skilgreindar í lögreglulögum.  


Staðreynd málsins er einfaldlega sú að sá niðurskurður sem orðið hefur á fjárframlögum til lögreglunnar mun, ef hann hefur ekki þegar gert það sbr. ofangreinda umfjöllun um mannslát á Kópaskeri, koma mjög alvarlega niður á öryggi landsmanna og jafnvel kosta mannslíf.


Staðreynd málsins er einfaldlega sú að Landssamband lögreglumanna hefur um árabil varað stjórnvöld við þessum niðurskurði en aðvaranir LL hafa farið sem vindur um eyru sömu stjórnvalda.


Staðreynd málsins er einfaldlega sú að Alþingi Íslendinga og fjárveitingavaldið ber ábyrgð á þessari grafalvarlegu stöðu og það er hins sama Alþingis að svara fyrir þessa stöðu!

Til baka