Fréttir

Kosningar til Alþingis – stefna í löggæslumálum

23 apr. 2013

 

Líkt og gert var fyrir kosningar til Alþingis árið 2009 birtir LL hér fyrir neðan stefnu stjórnmálaflokkanna, sem bjóða fram til Alþingis, í löggæslumálum.

 

Nú var farin sú leið að leita að stefnunni inni á heimasíðum flokkanna sjálfra sem sýnir þá jafnframt hversu aðgengileg slík stefna er þeim kjósendum sem láta sig málefni löggæslu í landinu varða, í stað þess að láta flokkana um það sjálfa að svara einhverjum afmörkuðum spurningum.  Það hversu aðgengileg stefna viðkomandi stjórnmálaafls er á heimasíðu þess gefur, væntanlega, einnig ákveðnar vísbendingar um áherslur viðkomandi stjórnmálaafls í viðkomandi málaflokki.

 

Hér að neðan er fylgt sömu uppröðun flokka og er að finna á upplýsingasíðunni www.kjosturett.is þ.e.a.s. eftir listabókstaf einstakra framboða.  Þá er hér einnig að finna lén viðkomandi framboða á veraldarvefnum fyrir þá sem vilja kynna sér stefnumál flokkanna nánar.

 

Lesendum er bent á að kynna sér frekar þær upplýsingar sem er að finna, í skýrt afmörkuðum flokkum, á vefslóðinni www.kjosturett.is.  Þar mun einnig, eftir kosningar – einnig í löggæslumálum – verða að finna einskonar „Check Lista“ þar sem hægt verður að finna „efndir“ flokkanna á kosningaloforðunum.

_____________________________________

 

(X A) Björt framtíð (www.bjortframtid.is)

 

Engar upplýsingar er að finna um stefnu Bjartrar framtíðar í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X B) Framsóknarflokkurinn (www.xb.is)

 

Mikilvægt er að hefja vinnu við endurskipulagningu á ríkisútgjöldum með það að markmiði að lækka raunkostnað í rekstri ríkisins. Við þær aðgerðir er mikilvægt að forgangsraða og að staðinn verði vörður um grunnþætti velferðar- og menntakerfis auk löggæslu.

 

Það er grunnskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna. Forsenda þess er öflug löggæsla. Framsóknarflokkurinn átelur mjög fjársvelti löggæslumála. Lögreglu verði sköpuð starfsskilyrði til að hún geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem að henni snúa úti um land allt, allan ársins hring.

Til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi s.s. innflutningi fíkniefna, mansali, hryðjuverkum og auknum umsvifum skipulagðra glæpagengja, skal veita lögreglunni forvirkar rannsóknarheimildir sambærilegar þeim sem lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur.

 

(X D) Sjálfstæðisflokkurinn (www.xd.is)

 

Eitt af mikilvægustu hlutverkum ríkisins er að tryggja öryggi borgaranna. Þess vegna verður að gera lögreglunni kleift að sinna hlutverki sínu.

  • Löggæsla efld um land allt og sérstaklega hugað að lögregluembættum á landsbyggðinni
  • Landhelgisgæslan ráði á hverjum tíma yfir nauðsynlegum tækja- og skipakosti

 

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að tryggja öryggi og velferð landsmanna með því að leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi. Örugg heilbrigðisþjónusta, góð menntun og trygg löggæsla skal vera í forgrunni.

 

Komið er að þolmörkum í niðurskurði löggæslumála. Efla þarf lögregluna svo að hún geti sinnt grunnþjónustu og aukið sýnileika. Á sama tíma þarf að gæta þess að fjármunir fylgi nýjum og krefjandi verkefnum lögreglu s.s. vegna öryggismála og skipulagðrar glæpastarfsemi. Tryggja þarf að miðlæg stoðþjónusta innan lögreglu sé öflug, aðgengileg og án endurgjalds fyrir öll lögregluembætti landsins. Efla þarf samstarf við önnur lönd og tryggja samræmt verklag og vistun gagnagrunna sem standast alþjóðlega öryggisstaðla. Brýnt er að lögreglunni verði tryggðar sambærilegar aðstæður og á Norðurlöndunum hvað varðar heimildir og búnað til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Mikilvægt er að efla menntun og þjálfun lögreglumanna og tryggja þeim fullnægjandi búnað. Bera þarf saman lögreglunám við sambærilegt nám í nágrannaríkjum okkar og tryggja öfluga símenntun.

 

Styrkja þarf lögregluembættin á landsbyggðinni.  Breytingu á skipan sýslumanns- og lögregluembætta þarf að gera á forsendum íbúa og taka mið af landfræðilegri stöðu.

 

(X G) Hægri grænir (www.afram-island.is)

 

„Með lögum skal land byggja“

 

Í hnotskurn:

  • Lögregluskóla ríkisins ætti að setja inn í Háskóla Íslands.
  • Fjölga lögreglumönnum, hækka laun og bæta starfsumhverfi þeirra.
  • Færa lögreglunám yfir á háskólastig eins og í löndunum í kringum okkur.
  • Eftir að Sérstakur saksóknari vindur niður seglin ætti það fjármagn sem er eyrnamerkt honum að færast eftir hendinni til lögreglunnar.
  • Starfsmenn Sérstaks saksóknara ættu einnig að geta fengið vinnu hjá lögreglunni, því ekki veitir af fleiri löggæslumönnum með mismunandi bakgrunn.
  • Ráða þarf amk. 200 manns til viðbótar því sem nú er til lögreglunnar og gætu starfsmenn Sérstaks komið til móts við þá þörf að einhverju leiti.
  • Stoppa dæmda menn og önnur glæpagengi við komuna til landsins.
  • Gera sérsamning um SIS upplýsingakerfið eins og fjölmargar aðrar þjóðir hafa gert.
  • Herða þarf viðurlög við ólöglegum vopnaburði og vopnaeign.
  • Vísa erlendum glæpamönnum úr landi og banna dæmdum glæpamönnum að stofna fyrirtæki á Íslandi, eða sitja í stjórnum fyrirtækja.
  • Auka þarf valdheimildir, forvarnir og upplýsingaöflun lögreglunnar til hins sama og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.
  • Margfalda þarf rafrænt myndavélaeftirlit á vegum.
  • Segja upp Schengen samningnum.
  • Flokkurinn er hlynntur að taka upp samfélagsþjónustu í stað skilorðsbundinna refsidóma.
  • Leysa upp og banna erlend eða íslensk glæpasamtök.
  • Stofna verður til innra eftirlits hjá lögreglunni eins og hjá öðrum ríkisstofnunum.
  • Taka skal upp almenna vegabréfaskoðun á landamærum Íslands.
  • Komið skal á öflugu innra eftirliti ríkisins með öllum ríksstofnum og félögum í eigu þess. Sérstök rannsóknardeild með víðtækar rannsóknarheimildir annist þetta með fulltrúum ríkisendurskoðanda, ríkisskattstjóra og rannsóknarlögreglu.
  • Nefndir alþingis skulu geta kallað á vitnisburð aðila með vitnastefnu (subpoena) að viðlagðri refsingu.

 

Mun meira efni um löggæslumál er að finna á heimasíðu Hægri grænna, svo mikið að ógerningur er að koma því öllu fyrir hér. Lesendum er því bent á að kynna sér það efni sérstaklega https://www.afram-island.is/stefnumal/loggaesla/

 

(X H) Húmanistaflokkurinn

(httpss://www.facebook.com/pages/H%C3%BAmanistaflokkurinn/200634836628989)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Húmanistaflokksins í löggæslumálum á heimasíðu flokksins á Facebook.

 

(X I) Flokkur heimilanna (www.flokkurheimilanna.is)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Flokks heimilanna í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X J) Regnboginn (www.regnboginn.is)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Regnbogans í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X K) Sturla Jónsson (www.sturlajonsson.is)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Sturla Jónssonar í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X L) Lýðræðisvaktin (www.xlvaktin.is)

 

Enga skýra stefnu í löggæslumálum er að finna á heimasíðu Lýðræðisvaktarinnar. Þar má þó finna ákveðna stefnumörkun í skýrt afmörkuðum flokkum s.s. vændi, mansali og ofbeldi svo eitthvað sé nefnt.

 

(X M) Landsbyggðarflokkurinn (www.landsbyggdin.is)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Landsbyggðarflokksins í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X R) Alþýðufylkingin (https://www.althydufylkingin.blogspot.com/)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Alþýðufylkingarinnar í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X S) Samfylkingin (www.xs.is)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Samfylkingarinnar í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

 

(X T) Dögun (www.xdogun.is)

 

Enga skýra stefnu í löggæslumálum er að finna á heimasíðu Dögunar. Þar má þó finna ákveðna stefnumörkun í skýrt afmörkuðum flokkum s.s. vændi, mansali og ofbeldi svo eitthvað sé nefnt.

 

(X V) Vinstrihreyfingin – grænt framboð (www.vg.is)

 

Ekki er að finna beina stefnu Vintrihreyfingarinnar – græns framboðs í löggæslumálum annað en upptalningu á þeim verkefnum sem þeirra ráðherra yfir málaflokknum hefur unnið að á undanförnum misserum og lýtur að auknum fjárveitingum til baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, mansali, vændi, ofbeldi o.fl.

 

(X Þ) Piratar (www.piratar.is)

 

Engar beinar upplýsingar er að finna um stefnu Pirata í löggæslumálum á heimasíðu flokksins.

Til baka