Fréttir

Frumvarp til breytinga á lögreglulögum

25 feb. 2014

Frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögreglulögum nr. 90/1996 hefur verið sett á dagskrá þingfundar nr. 68 sem hófst kl. 13:30 í dag (þriðjudaginn 25. febrúar).

 

Alls óvíst er um hvenær umræða (2. umræða) hefst um frumvarpið ásamt breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar auk nefndarálits þar sem ýmis hitamál eru nú til umræðu á þinginu.

 

Ljóst er að afar lítið tillit hefur verið tekið til athugasemda LL við frumvarpið en helstu breytingar sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að gerðar verði á frumvarpinu gera ráð fyrir því að lögreglustjórar í landinu verði níu (9) í stað átta (8) eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu.  Þar með verði sjálfstæður lögreglustjóri starfandi í Vestmannaeyjum en það hefur verið mikið baráttumál Eyjamanna og hefur LL tekið undir með þeim er kemur að lögreglustjórn í Vestmannaeyjum.

 

Áhugasömum er bent á að kynna sér málið frekar á undirsíðunni „Skipulagsbreytingar“ og þeim síðum sem þar er að finna en þar hefur verið reynt að halda utan um þær skipulagsbreytingar sem gerðar hafa verið á lögreglu landsins sem og þær breytingar sem lagðar hafa verið til.

 

Uppfært föstudaginn 28. febrúar 2014.

 

Annarri umræðu um frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögreglulögunum var frestað s.l. þriðjudag, og aftur frestað bæði miðvikudag og fimmtudag.  

Í komandi viku eru ráðgerðir nefndardagar á Alþingi þ.a. málið kemur þ.a.l. fyrst aftur til umræðu í annarri viku (vika 11 – 10. – 14. mars n.k.).

Til baka