Fréttir

Nýskipan lögreglumála og stjórnskipun í héraði

30 júl. 2014

Nú liggja fyrir upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu hverjir hinir nýju lögreglustjórar landsins verða en fréttatilkynning þess efnis barst frá ráðuneytinu þann 24. júlí s.l. í kjölfar þess að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hafði lýst því yfir opinberlega að hann hefði fengið starf sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem hann hafði nokkru áður sótt um.  Áður en Stefán tilkynnti að hann hefði fengið starfið hjá Reykjavíkurborg hafði hann dregið til baka umsókn sína um starf forstöðumanns Samgöngustofu.

 

Hinir nýju lögreglustjórar verða, skv. fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins:

 

á Suðurlandi: Kjartan Þorkelsson,

á Austurlandi: Inger L. Jónsdóttir,

á Norðurlandi eystra: Halla Bergþóra Björnsdóttir,

á Norðurlandi vestra: Páll Björnsson,

á Vesturlandi: Úlfar Lúðvíksson,

á höfuðborgarsvæðinu: Sigríður Björk Guðjónsdóttir,

á Suðurnesjum: Ólafur Helgi Kjartansson.

 

Hinir nýju sýslumenn verða, skv. fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins:

 

á Suðurlandi: Anna Birna Þráinsdóttir,

í Vestmannaeyjum: Lára Huld Guðjónsdóttir,

á Austurlandi: Lárus Bjarnason,

á Norðurlandi eystra: Svavar Pálsson,

á Norðurlandi vestra: Bjarni G. Stefánsson,

á Vestfjörðum: Jónas Guðmundsson,

á Vesturlandi: Ólafur K. Ólafsson,

á höfuðborgarsvæðinu: Þórólfur Halldórsson,

á Suðurnesjum: Ásdís Ármannsdóttir.

 

Þá hefur innanríkisráðuneytið, í dag (30. júlí) auglýst laus til umsóknar embætti lögreglustjóranna á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum.

 

Þann 4. júní s.l. birtust á vef innanríkisráðuneytisins umræðuskjöl um umdæmamörk hinna nýju lögreglu- og sýslumannsembætta, mögulegar staðsetningar höfuðstöðva lögreglu og sýslumanna ásamt öðrum lögreglustöðvum og sýsluskrifstofum.  Kallaði ráðuneytið jafnframt eftir athugasemdum við umræðuskjölin fyrir 1. júlí s.l. en umsagnarfrestur var síðar framlengdur til 14. júlí s.l.

 

Þá er jafnframt að finna á vef innanríkisráðuneytisins frétt þess efnis að Karl Gauti Hjaltason, fv. lögreglustjóri og sýslumaður í Vestmannaeyjum hafi verið settur skólastjóri Lögregluskóla ríkisins frá og með 1. júlí s.l.  

Athygli vekur, í þessu sambandi, að skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, sem jafnframt er einn af lögreglustjórum landsins, er eini lögreglustjórinn sem ekki fer með skipunarvald yfir þeim lögreglumönnum sem starfa hjá því embætti heldur er það vald falið embætti Ríkislögreglustjórans með nýlegum breytingum á lögreglulögunum (sjá 9. gr. laga nr. 51., 27. maí 2014).  Hverju þetta sætir er erfitt um að segja þar sem ekki er að sjá neinar breytingar í nýsamþykktum lögum nr. 51/2014 þess efnis að gerð hafi verið breyting á 36. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 en í henni segir að Lögregluskóli ríkisins sé sjálfstæð stofnun.  Það eina sem hægt er að finna um mögulega breytingu á því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í 36. lögreglulaganna er það sem fram kemur 43. tl. í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar þar sem segir að „Lögregluskólinn verði sameinaður ríkislögreglustjóra og Neyðarlínan sameinuð Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra“. 

Til baka