Fréttir

Innanríkisráðuneytið óskar umsagna um framtíðarskipan lögreglumenntunar

26 nóv. 2014

Á vef innanríkisráðuneytisins er nú að finna frétt þar sem óskað er umsagna um tillögur starfshóps um framtíðarskipan lögreglumenntunar á Íslandi.

 

Tillögurnar gera meðal annars ráð fyrir að námið verði þriggja ára nám á háskólastigi, að skólinn verði sjálfstæði eining en menntun útvistað til menntakerfis að stórum hluta og að Lögregluskólinn verði fræðslu- og rannsóknarsetur lögreglu.

 

Hægt er að senda inn umsagnir um tillögurnar á netfangið postur@irr.is með efnislínunni:  Umsögn um framtíðarskipan lögreglunáms.  Umsagnir þurfa að hafa borist fyrir 8. desember n.k.

 

Nánar er hægt að lesa um starfshópinn á vef innanríkisráðuneytisins og þar er einnig hægt að nálgast tillögurnar til aflestrar.

 

Fjallað er um málið m.a. á mbl.is í dag (miðvikudaginn 26. nóvember).

 

Í júní 2013 lauk Guðrún Tinna Ólafsdóttir við mastersritgerð sína í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands en rannsóknarverkefni hennar var einmitt framtíðarskipan lögreglumenntunar á Íslandi.  Hægt er að kynna sér ritgerðina á Skemmunni.  Fjallað var um ritgerð Guðrúnar Tinnu í tímariti Háskóla Íslands á þessu ári.

Þá hefur margítrekað verið fjallað um þessi mál á Alþingi Íslendinga, m.a. á árinum 2003 – 2004 svo sem sjá má í þingsályktunartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Einnig hafa ráðherrar málaflokksins fjallað ítarlega um þessi mál í gegnum tíðina svo sem sjá má við lestur ræðu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra sem hann flutti á ráðstefnu samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2001.

 

Talsvert hefur verið fjallað um menntunarmál lögreglumanna á Íslandi m.a. með hliðsjón af menntun lögreglumanna á hinum Norðurlöndunum.  Í október árið 2000 birtist m.a. viðtal við Hans Sverre Sjövold, sem þá var einn þriggja aðstoðarríkislögreglustjóra Noregs, en í viðtalinu lagði hann talsverða áherslu á aukna menntun lögreglumanna til að takast á við ný og flóknari verkefni lögreglu.   

Til baka