Fréttir

Kjarasamningur samþykktur.

19 nóv. 2015

Kjörstjórn LL kom saman í dag kl. 11.40 á skrifstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum ásamt Kristjáni B.Thorlacius hrl. frá Fortís.

 

 

Niðurstaða kjörstjórnar er að hún staðfesti rafræna kosningu um samkomulag Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, sem undirritað var þann 28. október s.l.

 

Á kjörskrá voru 672 einstaklingar og neyttu 634 atkvæðisréttar síns. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var því 94,35%.

 

Já sögðu 308 eða 48,58%

Nei sögðu 315 eða 49,68%

Auðir seðlar voru 11 eða 1,74%

 

Ljóst er því að samningurinn var ekki felldur með tilskyldum meirihluta greiddra atkvæða og verður því, m.a. með vísun til niðurstöðu Félagsdóms í máli er varðar talningu og atkvæði í kosningu um kjarasamninga, að líta svo á að samkomulagið hafi verið samþykkt.

 

Undir þetta rita.

Guðmundur Fylkisson, Brynhildur Björnsdóttir og Hrafn Ásgeirsson. 

 

Varamenn í kjörstjórn eru Hermundur Guðsteinsson, Hjördís Sigurbjartsdóttur og Gústaf Anton Ingason og höfðu þau einnig látið í ljós þá skoðun sína að þau samþykktu þetta.

 

Rétt er að vísa á nokkur atriði vegna þeirra stöðu að þeir sem sögðu nei eru fleiri en þeir sem sögðu já. 

Þegar kjörstjórn fékk í hendur skýrslu fyrirtækis þess sem sá um kosninguna þá var þar vakin athygli á því að þetta væri sérstakt fyrir margar sakir.  Fyrir það fyrsta að þátttaka var gríðarleg og að félagsmenn skiptist í tvær fylkingar.  Síðan var vakin athygli á því að vægi þeirra sem skiluðu auðu væri nokkuð í þessu tilfelli.  Sjá hér hjá Outcome

 

Vegna þessa var ákveðið að leita til lögmanna með þetta. Leitað var til Fortís og síðan BSRB með þetta.  Hér fyrir neðan má sjá niðurstöðu Fortís um málið.  Lögmaður BSRB er sammála þessari niðurstöðu.

 

MINNISBLAÐ

___________________________________________________________________________

Til: Stjórnar Landssambands lögreglumanna, Snorri Magnússon formaður.

Frá: Kristjáni B. Thorlacius hrl., Lögmannsstofunni Fortis.

Dags: 18. nóvember 2015.

___________________________________________________________________________

Óskað hefur verið álits á niðurstöðu atkvæðagreiðslu um kjarasamning fjármála- og

efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands lögreglumanna, sem skrifað var undir

þann 28. október sl. og þeim réttaráhrifum sem hún hefur í för með sér.


Eftirtalin gögn eru fyrirliggjandi:

1. Kjarasamningur milli fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Landssambands

lögreglumanna, sem skrifað var undir þann 28. október 2015.

2. Skýrsla Outcome kannana ehf,, um atkvæðagreiðslu Landssambands lögreglumanna

um samkomulag við samninganefnd ríkisins í nóvember 2015 – niðurstaða.

Þá hafa verið skoðuð eftirtalin ákvæði laga og dómar:

3. Ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna,

4. Ákvæða laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur,

5. Dómur Félagsdóms í máli Hins íslenska kennararfélags gegn fjármálaráðherra f.h.

6. Lög Landssambands lögreglumanna.


Minnisblað þetta byggir á þeim forsendum og þeim gögnum sem að ofan greinir og þeim

ályktunum sem dregnar hafa verið af þeim.


A. Málavextir:

Atvik málsins eru þau að samninganefnd Landssambands lögreglumanna (LL) skrifaði undir

kjarasamning við samninganefnd ríkisins þann 28. október 2015. Undirskrift

samninganefndarinnar var, í samræmi við ákvæði 27. gr. laga LL, gerð með fyrirvara um

samþykki félagsmanna.

 

Í undirrituninni kemur fram að samningsaðilar skuli bera samninginn, ásamt bókunum og

fylgiskjölum, upp til samþykktar. Í framhaldi af undirritun samningsins var af hálfu LL

boðað til rafrænnar kosningar um samninginn og var það gert í samræmi við heimildir í 2.

mgr. 27. gr. laga félagsins. Outcome kannanir ehf. var fengið til að annast um

allsherjaratkvæðagreiðsluna og var til hennar boðað af hálfu kjörstjórnar LL í samræmi við

ákvæði laga LL.

Skýrsla Outcome kannana ehf. um niðurstöðu kosningarinnar var send kjörstjórn og

fyrirsvarsmönnum LL þann 18. nóvember 2015. Í skýrslunni kemur fram að kosningin hafi

hafist þann 12.11.2015 kl. 12.26 og henni hafi lokið þann 18.11.2015 kl. 12.01. Á kjörskrá

voru 672, atkvæði greiddu 634, sem þýðir að 94,38% þeirra sem voru á kjörskrá greiddu

atkvæði. Já sögðu 308 sem skv. skýrslunni jafngildir 48,58% greiddra atkvæða, nei sögðu

315, sem jafngildir skv. skýrslunni 49,68% greiddra atkvæða. 11 skiluðu auðu, sem jafngildir

1,74% greiddra atkvæða.

 

B. Umfjöllun um álitaefnið:

Til skoðunar er hvort niðurstaða atkvæðagreiðslunnar feli í sér að kjarasamningurinn hafi

verið felldur í atkvæðagreiðslunni.

Við skoðun á þessu álitaefni er rétt að horfa til þeirra lagaákvæða sem gilda um

atkvæðagreiðslur hjá stéttarfélögum.

Í 3. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 segir um kjarasamninga:

Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann

frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu

með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungs þátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá

innan fjögurra vikna frá undirritun. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna

um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. […].

Í 15. gr. laga 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er svohljóðandi ákvæði um

atkvæðagreiðslu vegna boðunar verkfalla:

15. gr. Boðun verkfalls er því aðeins lögmæt að ákvörðun um hana hafi verið tekin í almennri leynilegri

allsherjaratkvæðagreiðslu í hverju stéttarfélagi sem er samningsaðili. Til að samþykkja verkfallsboðun

þarf a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa

tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra samþykkt hana.

Í báðum þessum ákvæðum, sem segja má að feli í sér sömu efnisregluna, er við það miðað að

meiri hluta þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni þurfi til að fella eða samþykkja þá

tillögu sem tekin er afstaða til í viðkomandi atkvæðagreiðslu.

 

Ekki eru til dómar Félagsdóms þar sem reynt hefur á túlkun þessa hugtaks í 3. mgr. 5. gr. en

horfa verður til þeirra úrlausna Félagsdóms þar sem túlkuð eru ákvæði sem fela í sér sömu

efnisreglu.


Í dómi Félagsdóms í máli Hins íslenska kennarafélags gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs nr.

5/1988, reyndi á túlkun framangreindrar reglu um boðun verkfalls í 15. gr. laga 94/1986. Í

dóm Félagsdóms segir um þetta atriði:


… er óhjákæmilegt að skýra greinina á þá leið, að til boðunar verkfalls verði meiri hluti þeirra, sem

greitt hafa atkvæði í slíkri atkvæðagreiðslu, að hafa á ótvíræðan hátt lýst vilja sínum til að fara í

verkfall. Hefði ætlun löggjafans verið sú, að afl atkvæða réði úrslitum í slíkri atkvæðagreiðslu, að

skilyrði um kosningaþátttöku uppfylltu, hefði legið beint við að orða lagatextann með þeim hætti.

Ákvæði greinarinnar um samþykki meiri hluta þátttakenda til verkfallsboðunar áskilur því samþykki

hreins meiri hluta allra, sem skila atkvæðaseðli í slíkri atkvæðagreiðslu. (áherslubreyting KBTh)

Niðurstaðan varð sú, að auð atkvæði teldust með greiddum atkvæðum. Af þessu er ljóst að við

talningu atkvæða í atkvæðagreiðslu af því tagi sem hér er til umfjöllunar þá reynir á túlkun á

því orðalagi 3. mgr. 5. gr. þar sem segir:

 

…gildir hann frá undirskriftardegi sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega

atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða… (áherslubreyting KBTh)

Rétt er að hafa í huga að ofangreint ákvæði er í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur en ekki í

lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir það verður að telja að þeirri reglu

yrði beitt við úrlausn málsins ef á reyndi fyrir dómi. Enda standa engar forsendur eða

röksemdir til þess að annarri reglu yrði beitt um atkvæðagreiðslur félagsmanna í stéttarfélagi

opinberra starfsmanna en í stéttarfélagi starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði.

Þá er rétt að horfa til þess að í ofangreindum rökstuðningi Félagsdóms í máli nr. 5/1988 var

sérstaklega vísað til þess að ef ætlun löggjafans hefði verið sú að afl atkvæða réði úrslitum í

atkvæðagreiðslu þá hefði legið beint við að orða lagatextann með þeim hætti. Dæmi eru um

að slíkt hafi verið tekið sérstaklega fram í greinargerð með lögum sem ætlað var að tryggja að

afl atkvæða réði úrslitum. Í greinargerð með lögum nr. 23/2011, sem breyttu ákvæðum 11. gr.

laga nr. 91/2010 um þjóðaratkvæðagreiðslur var þannig sérstaklega tekið fram að lagðar væru

til „breytingar á 11. gr. laganna um að skýrt verði kveðið á um að til þess að

þjóðaratkvæðagreiðsla teljist samþykkt þurfi meiri hluti gildra atkvæða þeirra sem taka þátt í

atkvæðagreiðslunni að fylgja tillögunni. Nefndin telur nauðsynlegt að taka þetta skýrt fram

þar sem annars er unnt að líta svo á að auðir seðlar og ógildir geti verið túlkaðir sem

andvígir tillögunni að þessu leyti.“

 

Af því sem hér hefur verið rakið og sérstaklega niðurstöðu Félagsdóms í málinu nr. 5/1988

verður ekki annað séð en að niðurstaða Outcome kannana ehf., þar sem heildarfjöldi greiddra

atkvæða er tilgreindur 634, sé rétt. Sá fjöldi atkvæða verður því lagður til grundvallar þegar

metið er hvort samningurinn hafi verið felldur með meiri hluta greiddra atkvæða. Fyrir liggur

að þeir sem höfnuðu samningnum voru 315, eða sem jafngildir 49,68% af greiddum

atkvæðum. Samningurinn var því ekki felldur með tilskyldum meirihluta greiddra atkvæða.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið er það því mat undirritaðs að kjarasamningurinn

frá 28. október 2015 sé í gildi frá undirskriftardegi.


Kristján B. Thorlacius, hrl.

 

Einnig er rétt að vísa hér á skrif hjá ASÍ

 

Í stuttu máli, nei atkvæðin hefðu þurft að vera 318 til að fella samninginn. 

Til baka