Fréttir

Lögregluembættin fá 400 mkr. viðbótarframlag

10 mar. 2016

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins kemur fram að búið er að útfæra hugmyndir um dreifingu 400 mkr. viðbótarframlags til löggæslumála, sem ákvarðað var í fjárlögum fyrir árið 2016.

 

 

Samkvæmt lista, sem birtist í neðst í fréttinni, dreifist viðbótarframlagið með eftirfarandi hætti á embættin:

 

  • Ríkislögreglustjóri 85 m.kr. vegna hækkaðs vástigs, álags á landamæri, stuðnings við embættið og umferðaröryggismála.
  • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 140 m.kr. vegna fjölgunar íbúa, fjölgunar brota og til að bæta árangur í rannsóknum.
  • Lögreglan á Suðurnesjum 70 m.kr. vegna aukinnar landamæravörslu.
  • Lögreglan á Austurlandi 25 m.kr. vegna aukinnar landamæravörslu.
  • Lögreglan á Norðurlandi eystra 20 m.kr. vegna aukins umfangs við iðnarauppbyggingu og landamæravörslu
  • Lögreglan á Suðurlandi 20 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan á Vestfjörðum 10 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan á Vesturlandi 10 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan í Vestmannaeyjum 10 m.kr. til að styrkja embættið.
  • Lögreglan á Norðurlandi vestra 10 m.kr. til að styrkja embættið.

Ljóst er að þetta viðbótarframlag er ágætis byrjun á því að rétta við skútuna en ljóst er, m.a. af skýrslu sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi í desember 2012, að þetta viðbótarframlag er í raun ekki nema dropi í hafið.  Í skýrslunni, sem ber heitið “Staða lögreglunnar” kemur nefnilega fram að niðurskurðurinn, sem hátt hafði sér stað í fjárframlögum til löggæslu og öryggis Íslendinga nam, uppreiknað á verðlagi í september árið 2012 litlum 2,8 milljörðum króna (tvö þúsund og átta hundruð milljónum).  Það lætur nærri að vera nær allt rekstrarfé stærsta lögregluembættis landsins það ár!

 

Þá er einnig ljóst að þessar 400 mkr. duga skammt til fjölgunar lögreglumanna í ljósi þess að 500 mkr. sem sagðar eru hafa komið aukalega inn í löggæslu í ráðherratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, skiluðu sér ekki nema að afar litlu leyti til þeirrar fjölgunar lögreglumanna á landsvísu, sem að var stefnt.  Í áður tilvitnaðri skýrslu Ögmundar sést, svart á hvítu að á þeim tíma sem skýrslan tók til (2007 – 2012) hafði lögreglumönnum á landsvísu fækkað um a.m.k. 81. 

Í ársskýrslum Ríkislögreglustjórans sést, svo ekki verður um villst, að fjölgun lögreglumanna hefur ekki orðið með þeim hætti sem gert var ráð fyrir með því viðbótarfjármagni sem sagt er hafa farið inn í rekstur lögreglu.

 

Það vekur einnig athygli, við lestur listans hér að ofan, að viðbótarfjármagn til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er m.a. vegna “fjölgunar brota” sem kemur þeim eflaust spánskt fyrir sjónir sem fylgst hafa með löggæslumálum undanfarin ár þar sem hver fréttin á fætu annarri hefur birst um gífurlegan árangur embættisins í “fækkun brota”.  

 

Landssamband lögreglumanna (LL) hefur reyndar, mörg undanfarin ár, bent á þær staðreyndir sem hér er vitnað til að ofan m.a. niðurskurð til löggæslumála, fækkun lögreglumanna, fjölgun brota o.fl., o.fl. en allt fram að því að skýrslan um “Stöðu lögreglunnar” birtist opinberlega, voru sem héldu um stjórnvölinn óþreytandi í því að stíga á stokk og gera lítið úr málflutningi LL í þessum efnum.

 

Það er vel ef þeir sem um pyngjuna halda hafa loksins séð ljósið og áttað sig þá jafnframt, og vonandi, á því að LL hefur verið að fara með rétt mál undanfarin ár! 

 

Til baka