Fréttir

Ályktun stjórnar LL vegna launaþróunar lögreglumanna

21 mar. 2016

Á fundi stjórnar Landssambands lögreglumanna, sem haldinn var í dag, var eftirfarandi ályktun fundarins, sem send hefur verið fjölmiðlum, samþykkt:

 

„Stjórnarfundur Landssambands lögreglumanna (LL) haldinn 21. mars 2016 fagnar þeim sinnaskiptum sem virðast hafa orðið hjá fjármálaráðherra.  Sinnaskiptum, sem birtast í svari hans við fyrirspurn þingmanns VG, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, um þróun launa lögreglumanna.

 

LL hefur margítrekað, í kjarasamningsviðræðum undanfarinna ára, beðið um að fjármálaráðuneytið vinni þá vinnu sem birtist í svari ráðherrans.  Þeim beiðnum LL hefur í hvert sinn, m.a. við úrvinnslu gerðardóms í kjaradeilum LL, verið tekið fálega.  Á sama tíma hefur ráðuneytið blásið á þau gögn sem LL hefur látið vinna sem sýnt hafa fram á þá þróun sem birtist í svari ráðherrans.

 

Það er ljóst að gríðarlegrar óánægju hefur gætt, innan raða lögreglumanna, með launakjör stéttarinnar allt frá því að verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn.  Þá hefur óánægjan einnig magnast upp vegna ýmissa annarra svikinna loforða um leiðréttingar á launum lögreglumanna.  Rétt er einnig að nefna það sérstaklega að enn eru ýmis mál ókláruð frá síðustu kjarasamningsgerð, sem m.a. varða aukna ábyrgð lögreglumanna, tryggingamál o.fl.  LL hefur margítrekað rekið á eftir svörum í þessum efnum en engin svör hafa fengist.

 

Svör fjármálaráðherra, við fyrirspurn þingmannsins hafa síður en svo slegið á þá miklu ólgu og reiði sem er innan raða lögreglumanna.

 

LL er því, á þessum tímapunkti spurn, hvað ráðherrann hyggist gera í þessum efnum og sér í lagi í ljósi þess að síðasta framlengingarsamkomulag kjarasamningsins var samþykkt á lagatæknilegum atriðum, með minnihluta já atkvæða?“


Rétt er að benda áhugasömum á að lesa næstu frétt hér fyrir neðan sem skýrir stöðuna og þá þróun sem orðið hefur á launum lögreglumanna frá því að verkfallsréttur þeirra var afnuminn.

Til baka