Fréttir

Menntun lögreglumanna

12 maí. 2016

Á Alþingi Íslendinga var dreift frumvarpi til breytinga á lögreglulögum, þriðjudaginn 10. maí s.l., er varðar menntun lögreglumanna og Lögregluskóla ríkisins.

 

Landssamband lögreglumanna hefur um áraraðir talað fyrir því að menntun lögreglumanna verði færð til sama horfs og við höfum verið að sjá gerast á hinum Norðurlöndunum þ.e. að menntunin verði færð á háskólastig.

 

Stefna LL í þessum efnum helst fullkomlega í hendur við markmið Lögregluskóla ríkisins eins og þau birtast annarsvegar í skýrslu sem unnin var við skólann árið 2004 undir heitinu “Nýtt kerfi lögreglumenntunar” en í henni segir m.a. á bls. 1 og 2: 

 

„Það er því mat Lögregluskólans að nú sé rétta tækifærið til að færa kerfið í átt til þess sem nauðsynlegt má teljast svo að menntun lögreglumanna á Íslandi verði fullkomlega samkeppnishæf við það sem best gerist í nágrannalöndunum.  Í þessu sambandi má nefna að á samstarfsfundum norrænna valnefnda hefur á undanförnum árum verið tal[s]vert rætt um það að reyna að samræma inntökuskilyrði, inntökupróf, grunnnám og námskröfur allra lögregluskólanna á Norðulöndunum með það fyrir augum að lögreglumenn geti, með ákveðnu og skilgreindu námi, starfað í hverju Norðurlandanna sem þeir kjósa.“

 

Þá sjást þessi markmið skólans einnig í yfirmarkmiðum langtímaáætlunar Lögregluskóla ríkisins 2007 – 2011 en í henni segir m.a. á bls. 2:

 

„Lögregluskóli ríkisins skal ávallt kappkosta að vera í fremstu röð lögreglumenntastofnana þeirra landa sem Ísland ber sig saman við hvað varðar gæði menntunar sem boðið er upp á, gæði námsefnis sem kennt er og námsframboð.

Með þessu móti mun skólinn áfram leitast við að tryggja að nemendur hans öðlist menntun og hæfni til að sinna starfi lögreglumanns og að þeir fái áhuga á að auka enn frekar við menntun sína. Rík áhersla skal ætíð lögð á þjónustulund, áhuga og gott siðferði nemenda.

Til þess að ná fram þessum markmiðum mun skólinn stuðla að áframhaldandi góðu starfsumhverfi fyrir starfsfólk sitt og nemendur. Skólinn mun tryggja kennaraliði sínu það kennslufræðilega og faglega umhverfi sem nauðsynlegt er og stuðla að því að allir öðlist aukna færni í því að miðla fróðleik.

Þá mun skólinn beita sér fyrir enn meiri tengslum skólans við lögreglustarfið og tryggja að starfsmenn hans viðhaldi faglegri þekkingu sinni og reynslu í lögreglustörfum.“

 

Hér má geta þess að í júní 2013 skilaði Guðrún Tinna Ólafsdóttir MS ritgerð sinni í mannauðsstjórnun við HÍ en heiti ritgerðarinnar er „Framtíð lögreglumenntunar á Íslandi.  Er grundvöllur fyrir menntun á háskólastigi.“ (https://skemman.is/en/item/view/1946/14669).  Í úrdrætti ritgerðarinnar kemur m.a. eftirfarandi fram:

 

„Helstu niðurstöður benda til þess að grundvöllur sé fyrir töluverðri eflingu á námi lögreglumanna, bæði með lengingu á námi og eflingu á faglegri þekkingu. Þegar litið er til Norðurlandanna og viðmiðunarstétta hér á landi eru fordæmi fyrir því að flytja menntunina á háskólastig. Í niðurstöðum kemur fram að mikill meirihluti lögreglumanna er hlynntur lögreglunámi á háskólastigi. Viðmælendur eru almennt sammála um að efla þurfi námið en leiðir að breytingum eru margar og áherslur viðmælenda misjafnar.“   

 

Það er í anda þessa, þingsamþykkta LL, samvinnu og samtala við forvígismenn landssambanda lögreglumanna á hinum Norðurlöndunum o.fl. sem stefna sú sem LL formlega setti fram á árinu 2008 um menntun lögreglumanna hefur verið mörkuð.

 

Í kjölfar þessa hafa verið unnar tvær skýrslur um framtíð lögreglumenntunar á Íslandi, annarsvegar 15. september 2014 og hinsvegar í júní 2015, sem síðan hafa verið notaðar til grundvallar þeirri stefnu sem innanríkisráðherra hefur nú markað og birtist í framlögðu frumvarpi um breytingar á lögreglulögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 29. apríl s.l. og gekk til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar þann 10. maí s.l.  Eftir því sem fram kemur á heimasvæði nefndarinnar á Alþingisvefnum hafa verið sendar út (í dag fimmtudaginn 12. mai) 55 beiðnir um umsagnir en umsagnarfrestur er til 18. maí n.k. 

 

LL mun senda inn umsögn sína, sem verður í anda umsagnar LL um frumvarpið þegar það lá frammi til kynningar á vef innanríkisráðuneytisins sem og með því inntaki sem birtist í ályktunum 33. þings LL um málefni lögregluskólans

 

„Menntun lögreglu er grunnur hvers lögreglumanns til framtíðar innan stéttarinnar.  Að færa lögreglunám á háskólastig og þar með lengja námið er afar gott skref.  Það hinsvegar að leggja niður lögregluskólann í núverandi mynd er galið á meðan að fyrsti árgangur lögreglumannsefna er í hinu nýja námi.  Þrjú ár á endurnýjunar í stéttinni gengur einfaldlega ekki upp.“

og,

„Lögreglumenn krefjast þess að þeirri sérhæfingu og þekkingu og þeim mannauði sem til staðar er í Lögregluskóla ríkisins verði ekki kastað fyrir róða við breytingar þær sem boðaðar hafa verið á lögreglunámi á Íslandi.  Starfsöryggi þeirra lögreglumanna sem starfa við lögregluskólann er í húfi og því krefst 33. þing Landssambands lögreglumanna þess að þeim lögreglumönnum sem þar starfa verði tryggt starf innan lögreglu, við kennslu lögreglufræða.  Ekki er síður mikilvægt, í þessu ljósi, að horfa til þess að sí- og endurmenntun lögreglumanna verði haldið áfram með kröftugum hætti og aukinni kröfu um fagmennsku í hvívetna.“

 

Þess má geta að ofangreindar ályktanir 33. þings LL hafa, auk þess að vera sendar á alla fjölmiðla landsins, verið sendar hverjum og einum þingmanni þjóðarinnar og ráðherrum.

 

Inntak athugasemda LL, frá 1. mars s.l., hefur verið endurtekin í tvígang á fundum með embættismönnum innanríkisráðuneytisins, nú síðast þann 18. apríl s.l. á fundi framkvæmdastjórnar LL með ráðuneytisstjóra og aðstoðarmanni ráðherra.  Þá er mér einnig kunnugt um það að framsögumaður meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hefur einnig verið í samtölum við bæði ráðherra og aðstoðarmann hennar vegna málsins.  Þá hefur framkvæmdastjórn LL einnig átt fundi með einstaka þingmönnum vegna þessa máls.  Rétt er að vekja athygli á fyrstu umræðu um frumvarpið (https://www.althingi.is/altext/145/05/l10154151.sgml), sem fram fór á Alþingi þann 10. maí s.l. og þar sérstaklega á orðum þingmannsins Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur en hún er einn þeirra þingmanna sem LL hefur rætt þessi mál mjög ítarlega við.  Ræður hennar við umræðuna bera þess enda glögg merki.

 

LL hefur, og mun halda því áfram, staðið allan þann vörð sem mögulegt getur talist að standa um réttindi og starfsöryggi þeirra lögreglumanna sem starfa við lögregluskólann.  Þess sér berlega merki í umsögn LL, frá 1. mars s.l., um frumvarpsdrögin þegar þau voru til kynningar á heimasíðu innanríkisráðuneytisins, því hefur verið og mun verða haldið vel á lofti á þeim fundum sem LL hefur átt um þessi mál með embættismönnum innanríkisráðuneytisins og það mun koma skilmerkilega fram í þeirri umsögn sem LL mun senda inn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vegna frumvarpsins.

 

Til baka