Fréttir

Áhyggjur af fjölgun slysa í lögreglunni

2 sep. 2016

Enn og aftur bendir Vinnueftirlitið á aukningu slysa í lögreglu, sbr. frétt á mbl.is í dag, en þetta er í annað sinn á innan við einu ári sem Vinnueftirlitið lýsir sérstökum áhyggjum sínum af þessari stöðu sem m.a. helgast af gegndarlausum niðurskurði og manneklu í lögreglu undanliðin ár.

 

Sérstaka athygli, í fréttinni á mbl.is í dag, vekja orð Kristins Tómassonar yfirlæknis vinnueftirlitsins:

 

„Við hjá stofn­un­inni höf­um haft sér­stak­ar áhyggj­ur af þróun slysa hjá lög­reglu. Það hef­ur mik­ill sam­drátt­ur orðið hjá aðilum inn­an þessa geira, þar sem lög­regl­an er stærsti aðil­inn. Lög­regluþjón­um á vett­vangi hef­ur fækkað, sem er mikið áhyggju­efni, en þarna hef­ur veru­leg breyt­ing orðið í fjölda slysa.“

 

Það er að æra óstöðugan að reyna að halda utan um það hversu oft Landssamband lögreglumanna hefur vakið athygli stjórnvalda á því ófremdarástandi sem ríkir í rekstri lögreglu og hefur ríkt frá því löngu fyrir hið svokallaða og margumtalað bankahrun.  Tölfræði talar hinsvegar alltaf sínu máli sbr. það sem fram kom í frétt hér á heimasíðu LL þann 29. september 2015:

 

Lögreglumaðurinn fór á stúfana og skoðaði ýmsar tölulegar staðreyndir í þessum efnum og kom eftirfarandi m.a. í ljós í þeirri könnun (horft er til áranna 2000 – 2014):

Lögreglumönnum hefur fækkað um:                              10,79%

Lögreglubifreiðum hefur fækkað um:                             12,42%

Akstur lögreglubifreiða hefur dregist saman um:         35,32%

Íbúafjöldi á Íslandi hefur aukist um:                                16,71%

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um:                  229,34%

Ökutækjum á Íslandi hefur fjölgað um:                           49,30%

(heimildir sem notast var við eru tölulegar upplýsingar úr ársskýrslum Ríkislögreglustjórans sem og af vefjum Hagstofu Íslands, Ferðamálastofu og Samgöngustofu)

Til baka