Fréttir

Lífeyrismál

20 sep. 2016

Á fundi formannaráðs BSRB, sem haldinn var í Reykjanesbæ, dagana 7. og 8. september s.l. voru umræður um að samþykkja tillögu að samkomulagi milli launþegahreyfingarinnar annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar, um breytingar á lífeyrissjóðakerfinu.  

LL var eitt af fjórum félögum (hin voru Sjúkraliðafélag Íslands, Tollvarðafélag Íslands og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamann) sem samþykktu ekki tillöguna og bókaði formaður LL eftirfarandi á fundinum:

 

„Reykjanesbæ 8. september 2016.

  

Landssamband lögreglumanna bókar eftirfarandi vegna vinnuskjals, dags. 6.9.2016 „Samkomulag um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna“:

 

Landssamband lögreglumanna samþykkir ekki fyrir sitt leyti þann texta sem fyrir liggur á formannaráðsfundi bandalagsins þann 7. september 2016.  Ástæður þess eru ýmsar en helstar þessar:

    1. Staða lögreglumanna er engan vegin nægilega skýr í skjalinu.
    2. Ekki liggur fyrir lagafrumvarpstexti sem tryggir stöðu lögreglumanna að neinu leyti.
    3. Ekki liggur fyrir hvaða ávinning opinberir starfsmenn hafa af því að samþykkja textan með tilvísun um að breytingar á lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna taki gildi þann 1. janúar 2017.
    4. Það hefur verið baráttumál lögreglumanna um áratugaskeið að vinna að lækkun lífeyristökualdurs en þetta skjal miðar að þveröfugu.“

Á fundi stjórnar LL þann 19. september s.l. var eftirfarandi ályktun samþykkt og send fjölmiðlum:


„Reykjavík 19. september 2019.

 

Stjórn Landssambands lögreglumanna (LL) mótmælir harðlega undirritun samkomulags um samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.  Stjórnin lýsir vanþóknun sinni á þessum vinnubrögðum og telur sig óbundna af undirrituninni.  Málið er enda langt í frá að vera tilbúið til undirritunar þar sem margir endar eru óhnýttir í þessari vinnu.

 

Nú liggur fyrir að framtíðar lífeyrisréttindi nýrra starfsmanna verða skert, starfsæfin lengd og ábyrgð vinnuveitanda á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna afnumin án þess að niðurstaða hafi fengist í það hvað komi í staðinn og á hvern hátt laun milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jöfnuð.  Það er enda ein af grunnforsendum jöfnunar lífeyrisréttinda að launakjör á milli markaða verði á sama tíma jöfnuð.“

 

Þá sendi Sjúkraliðafélag Íslands frá sér þessa ályktun og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna bókaði þetta á áður tilvitnuðum formannaráðsfundi.

Til baka