Fréttir

Bréf á formenn stjórnmálaflokka

17 okt. 2016

Landssamband lögreglumanna hefur í dag sent formönnum eftirtaldra stjórnmálaflokka, sem bjóða fram í komandi Alþingiskosningum bréf, í hverju formennirnir eru inntir eftir áherslum flokkanna er kemur að löggæslumálum og öryggi samfélagsins.  Nöfn flokkanna eru í stafrófsröð:

 

Alþýðufylkingin

Björt framtíð

Dögun

Flokkur fólksins

Framsóknarflokkurinn

Húmanistaflokkurinn

Íslenska þjóðfylkingin

Píratar

Samfylkingin

Sjálfstæðisflokkurinn

Viðreisn

Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

 

Innihald texta bréfsins er eftirfarandi:

 

Formaður [heiti stjórnmálaflokks]

Hr./Frú. [nafn formanns]

 

 

Efni:  Áherslur [heiti stjórnmálaflokks] í löggæslumálum.

 

Löggæslumál þjóðarinnar hafa verið í brennidepli undanfarin ár og sérstaklega í kjölfar „Búsáhaldabyltingarinnar“ og útkomu skýrslu innanríkisráðuneytisins um „Stöðu lögreglunnar“[1] í desember 2012.  Í umræddri skýrslu kemur fram að lögreglumönnum hefur fækkað um a.m.k. áttatíu (80) frá árinu 2007 og fjárveitingar til lögreglu hafa, á árunum 2008 – 2011 dregist saman um tvo komma átta milljarða króna (2.800.000.000,- kr.) á ársgrundvelli, uppreiknað á verðlagi ársins 2012!  Margt annað, sem aflaga hefur farið í löggæslumálum þjóðarinnar, er einnig staðfest í skýrslu þessari og staðfestir hún þar með allt það sem Landssamband lögreglumanna (LL) hefur haldið fram opinberlega í þessum efnum um áraraðir.

 

LL hefur tekið saman ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um stöðu þá sem nú er uppi og m.a. hefur áhrif á rekstur og umhverfi löggæslu á Íslandi, sem og öryggi þeirra sem hér búa og dvelja hverju sinni, en horft var til áranna 2000 – 2014 við úrvinnslu upplýsinganna sem leiddu eftirfarandi í ljós:

 

Lögreglumönnum fækkaði um:

10,79%

Lögreglubifreiðum fækkaði um:

12,42%

Akstur lögreglubifreiða dróst saman um:

35,32%

Íbúafjöldi á Íslandi jókst um:

16,71%

Ferðamönnum á Íslandi fjölgaði um:

229,34%

Ökutækjum á Íslandi fjölgaði um:

49,30%

Tafla 1 – heimildir sem notast var við eru tölulegar upplýsingar úr ársskýrslum Ríkislögreglustjórans sem og af vefjum Hagstofu Íslands, Ferðamálastofu og Samgöngustofu


Til viðbótar því sem fram kemur hér að ofan og tengist fjárveitingum og tölulegum staðreyndum er varða rekstur lögreglu og minnkandi möguleika hennar til að sinna lögbundnum skyldum sínum, hefur Vinnueftirlitið, í ársskýrslum sínum fyrir árin 2014 og 2015 vakið athygli stjórnvalda á þeirri miklu aukningu sem orðið hefur á vinnuslysum meðal lögreglumanna og í viðtölum við forstöðumann stofnunarinnar og yfirlækni hefur eftirfarandi m.a. komið fram í september 2015 og 2016:

 

Árið 2015:

 

„Hann [Kristinn Tómasson] segir að stærsti hópurinn sem um ræðir sé lögreglan – en einnig slökkvilið sveitarfélaganna svo og margir aðrir í fjölþættum störfum á vegum hins opinbera. Vandi lögreglunnar er varðar vinnuvernd sé mikill og viðvarandi undirmönnun rót þess vanda.“

 

[…]

 

„Kristinn bætir við að ábyrgðin liggi hjá yfirmönnum viðkomandi stofnana og fyrirtækja hins opinbera en það breyti ekki því að skilaboðin þurfi að koma úr efsta stóli ráðuneytanna og frá ráðherra.“[2]

 

Árið 2016:

 

„Við hjá stofn­un­inni höf­um haft sér­stak­ar áhyggj­ur af þróun slysa hjá lög­reglu.  Það hef­ur mik­ill sam­drátt­ur orðið hjá aðilum inn­an þessa geira, þar sem lög­regl­an er stærsti aðil­inn. Lög­regluþjón­um á vett­vangi hef­ur fækkað, sem er mikið áhyggju­efni, en þarna hef­ur veru­leg breyt­ing orðið í fjölda slysa.“[3]

 

Þá hefur einnig komið fram, í umfjöllun fjölmiðla, vegna útkomu skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjórans í september 2015 að lögreglan sé bæði undirmönnuð og fjársvelt.[4]

 

LL þykir rétt, í þessu samhengi, að benda á þá einföldu staðreynd að lögreglan er einn af hornsteinum lýðræðis í þessu landi og bregðist sá hornsteinn, t.d. vegna vanáætlana hverskonar, er ekki að neinu öðru að hverfa til að halda uppi lögum og reglu í landinu ólíkt því sem t.d. á við í flestum öðrum löndum þar sem hægt er að kalla til þjóðvarðlið eða her ef í algert óefni stefnir. 

 

Í ljósi ofangreinds, sem er langt frá því að vera tæmandi upptalning, leggur LL áherslu á að fá vitneskju um það hvernig [heiti stjórnmálaflokks] hyggst beita sér í löggæslumálum þjóðarinnar á komandi kjörtímabili, hverjar áherslur flokksins eru í þessum málaflokki og hvernig hann hyggst snúa þessari grafalvarlegu stöðu við.

 

LL væntir þess að svör yðar við þeim spurningum og áherslum, sem fram koma í bréfi þessu, berist skriflega og í tíma fyrir áætlaðar Alþingiskosningar þann 29. október n.k.  Með hliðsjón af því hve skammur tími er til kosninga er óskað eftir að svar verði jafnframt sent með tölvupósti á netfang LL: ll@bsrb.is

 

LL mun, að fengnum svörum yðar, birta þau opinberlega á vef LL til upplýsinga fyrir félagsmenn þ.a. þeir – og fjölskyldur þeirra – geti tekið upplýsta ákvörðun um notkun atkvæðisréttar síns í komandi Alþingiskosningum. 

Þess mun einnig verða getið sérstaklega berist engin svör frá yður.

 

F.h. Landssambands lögreglumanna

 

 

_______________________________________

Snorri Magnússon

Formaður LL



[2] https://www.logreglumenn.is/index.php?option=com_content&;view=article&id=1030:loegreglan-undirmoennue-og-fjarsvelt-vinnuslys-loegreglumanna&catid=110:frettir-2015&Itemid=268

[3] https://www.logreglumenn.is/index.php?option=com_content&;view=article&id=1107:ahyggjur-af-fjoelgun-slysa-i-loegreglunni&catid=113:frettir-2016&Itemid=270

Til baka