Fréttir

Staðreyndirnar tala sínu máli

18 okt. 2016

Í Morgunblaðinu í dag (bls. 6) er að finna yfirlýsingu innanríkisráðherra undir fyrirsögninni „Verið forgangsmál að efla löggæslu“.  Sömu yfirlýsingu er að finna á mbl.is undir fyrirsögninni „Innanríkisráðuneytið bregst við umfjöllun stöðu lögreglunnar“.

Í yfirlýsingunni kemur m.a. eftirfarandi fram:

 

„Þess­um fjár­mun­um hef­ur að mestu verið ráðstafað til þess að efla lög­regl­una og hef­ur áhersla verið lögð á að styrkja grunnþjón­ustu lög­reglu. Má þar nefna efl­ingu lög­gæslu á lands­byggðinni, til efl­ing­ar eft­ir­lits vegna fjölg­un­ar ferðamanna, auk­ins akst­urs lög­reglu­bíla og til þess að bæta búnað og þjálf­un lög­reglu­manna auk mannauðsmá­la.“

 

Rétt er það að nokkuð átak hefur verið gert í því, undanfarna mánuði, að efla þjálfun lögreglumanna en þegar aðrir liðir, að frádregnum fullyrðingum um fjármuni til löggæslu, sem fjallað verður um síðar, tala staðreyndir úr ársskýrslum Ríkislögreglustjórans o.fl. opinberra aðila sínu máli, sbr. þessa frétt á heimasíðu LL.

 

Lögreglumaðurinn hefur nú uppfært upplýsingarnar með tölum fyrir árið 2015 þ.a. horft er til áranna 2000 (löngu fyrir bankahrun) – 2015:

 

Lögreglumönnum hefur fækkað um:   8,78%
Lögreglubifreiðum hefur fækkað um:       13,04%
Akstur lögreglubifreiða hefur dregist saman um:   39,91%
Íbúafjöldi á Íslandi hefur aukist um:    17,94%
Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað um:            325,60%
Ökutækjum á Íslandi hefur fjölgað um:   54,91%

(Sem fyrr voru þær heimildir sem notast var við tölulegar upplýsingar úr ársskýrslum Ríkislögreglustjórans sem og af vefjum Hagstofu Íslands, Ferðamálastofu og Samgöngustofu) 

 

Af ofangreindum staðreyndum má sjá að fátt stendur eftir af yfirlýsingu innanríkisráðherra um eflingu löggæslu, sé horft til þeirra tölulegu staðreynda sem sjá má hér að ofan.  Vissulega fjölgaði lögreglumönnum, á landsvísu á milli áranna 2014 og 2015 um heila fjórtán (14) lögreglumenn en aftur á móti fækkaði þeim aftur á milli áranna 2015 og 2016 um fimm (5).

 

Staðreyndin í þessum efnum er hinsvegar sú að skv. löggæsluáætlun fyrir árin 2008 – 2012 gerðu mannaflaþarfagreiningar lögreglustjóranna í landinu ráð fyrir því að fjöldi starfandi lögreglumanna í landinu væri að lágmarki 804 árið 2012.  Reyndin var sú það árið að fjöldi lögreglumanna var 624.  Skeikar þar 180 stöðugildum lögreglumanna!

 

Eins og fram kemur hér að ofan verður fjallað nánar um fjárveitingar til löggæslumála síðar en fram að því er rétt að benda áhugasömum á að lesa skýrsluna „Staða lögreglunnar“ sem Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi Íslendinga í desember 2012 en í henni kemur fram að niðurskurður fjárheimilda til löggæslumála uppreiknað á verðlagi ársins 2012 voru litlir 2,8 milljarðar króna (2.800.000.000,-).

 

Þá er einnig rétt að benda á nýlegt svar innanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns VG, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur en þar fæst frekari staðfesting á þeim tölum um fjölda lögreglumanna sem fjallað er um hér að ofan.

 

Til frekari áréttingar ofangreindu er rétt að benda á þá einföldu staðreynd að nýlega hafa bæði Lögreglustjórafélagið (23. september s.l.) og Félag yfirlögregluþjóna (17. október s.l.) sent frá sér ályktanir um bága fjárhagsstöðu lögregluembættanna um allt land.

Til baka