Fréttir

Svör stjórnmálaflokkanna

28 okt. 2016

Mánudaginn 17. október sendi Landssamband lögreglumanna bréf á formenn allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis til að inna þá eftir svörum og stefnumálum flokkanna er kemur að löggæslu á Íslandi og öryggi landsmanna.


LL skrifaði flokkunum samskonar bréf fyrir Alþingiskosningarnar árið 2009.

 

Flokkarnir eru, í stafrófsröð, og þau svör sem hafa borist, eftirfarandi:

 

Aþýðufylkingin:

 

Svar til Landssambands lögreglumanna frá Alþýðufylkingunni

 

Alþýðufylkingin er meðvituð um þá alvarlegu stöðu sem niðurskurður til löggæslu hefur haft. Með aukinni ferðamennsku til Íslands hefði frekar verið ástæða til að fjölga í lögreglunni en fækka eins og fram kemur í bréfi ykkar. Sú hætta getur skapast að ríkjandi aðstæður leiði til uppgjafar meðal lögreglumanna sem þá leita til annarra starfa og vítahringur skapist.

 

Alþýðufylkingin hefur ekki í hyggju að auka vopnaburð lögreglunnar eða viðbúnað gagnvart almenningi, heldur lítur á fjölgun í lögregluliðinu sem leið til að auka öryggi borgaranna, upplýsa afbrot og forðast glundroða.

 

Við teljum að niðurskurður til lögreglumála sé hluti af þeirri stefnu markaðsvæðingar sem hefur tröllriðið samfélaginu undanfarna áratugi með niðurskurð í opinberum útgjöldum í forgrunni. Við teljum hins vegar að með félagsvæðingu fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins skapist mikið svigrúm til að ráðstafa miklu stærri hluta af fé samfélagsins á opinberum lýðræðislegum vettvangi til að auka lífsgæði í samfélaginu. Aukið fé til eflingar lögreglunnar er liður í því.

 

F.h. Alþýðufylkingarinnar

 

Þorvaldur Þorvaldsson

 

Björt framtíð:

 

Svar til Landsambands lögreglumanna


Hvernig mun BF beita sér í löggæslumálum þjóðarinnar á komandi kjörtímabili?


Grunnstoðir samfélagsins, hvort heldur sem er heilbrigðiskerfi, menntakerfi eða löggæsla er ekki til langs tíma hægt að reka á fórnfýsi og hugsjónum þeirra sem innan þeirra starfa. Á sama tíma og skorið hefur verið niður hjá lögreglunni hefur verkefnum fjölgað og þau orðið sum hver flóknari í úrvinnslu. Sú staða sem komin er upp hjá lögreglunni hefur átt sér langan aðdraganda og það á ekki að koma neinum á óvart að sett hafi verið of mikil ábyrgð á of fáar herðar. Nú er ekki hægt að horfa í hina áttina lengur. Setja verður löggæslumál í forgang. Fyrir því vill Björt framtíð beita sér enda um að ræða grunninnviði sem varða öryggi borgaranna og þjónustu við þá, oft á á neyðarstundu.


Hverjar eru áherslur flokksins í þessum málaflokki?


Áherslur flokksins liggja bæði í því að tryggja öryggi borgaranna og bæta aðbúnað og samkeppnishæfni stéttarinnar. Langt er í að nýliðun verði í stéttinni og hlúa þarf að þeim sem eftir eru. Álag og mannekla gerir það að verkum að starfið er e.t.v. ekki eins samkeppnishæft og önnur störf t.d. í einkageiranum, líkt og staðan er í dag. Það kemur ekki á óvart að þessir þættir hafi áhrif á flótta úr stéttinni. Meta þarf störf lögreglumanna að verðleikum og það er óviðunandi að þeir þurfi að standa í kjarabaráttu æ ofan í æ.


Hvernig hyggst hann snúa þessari grafalvarlegu stöðu við?


Niðurskurður hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir löggæslu í landinu og raunar í samfélaginu í heild. Björt framtíð telur manneklu innan lögreglunnar samfélagslegt vandamál. Auka þarf fjármagn til málaflokksins til að byrja með en Björt framtíð telur að fara þurfi fram samtal og samráð við embættin áður en tímabært sé að segja til um nánari útfærslur og líta á löggæslu í stærra samhengi í samfélaginu .

 

Dögun:

 

Svar Dögunar vegna bréfs Landssambands Lögreglumanna.

 

Við þökkum Landssambandi Lögreglumanna fyrir bréfið. Þær upplýsingar sem koma fram þar eru ógnvænlegar. Það er augljóst að að engu er að hverfa ef Lögreglan ræður ekki við sín verkefni eins og fram kemur í bréfinu. Slík tilfelli finnast í íslenskri sögu sbr Gúttóslagurinn og í minni íbúa landsins nú hversu mikið álag var á lögreglu landsins í Búsáhaldarbyltingunni í janúar 2009. Þar mátti litlu muna að öll bönd brystu. Fækkun lögreglumanna við störf um allt land er í raun hættuleg fyrir öryggi Íslendinga.

 

Niðurstaða Vinnueftirlitsins er mjög alvarleg og einnig sú tölfræði sem birt er í bréfinu, allt þetta segir okkur að við séum á rangri leið. 

 

Dögun telur það mjög brýnt að efla löggæsluna á Íslandi. Augljóst er að fjölga þarf lögreglumönnum því ótækt er eins og fram kemur að vegna fámennis séu vinnuslys lögreglumanna mun algengari nú en áður. Átt hefur sér stað mikill niðurskurður hjá hinu opinbera á liðnum árum og áratugum. Þessari þróun verður að snúa við, ekki bara hjá lögreglu heldur á fleiri sviðum.

 

Dögun varar við því að tekjustofnar ríkis og sveitafélaga verðo lækkaðir og telur að sækja eigi auknar tekjur með betri og skilvirkari innheimtu en verið hefur, við innheimtu auðlindagjalds og skattaeftirlits. Lögfesta þarf hógværa gjaldtöku af ferðamönnum við komu til landsins og nota það fé til aukins viðhalds og endurbóta þjóðvega og aðstöðu við fjölsótta ferðamannastaði. Aukið umferðareftirlit og samstarf lögreglu og tolleftirlits er nauðsyn. Það kostar aukið starf og fjölgun lögreglumanna er nauðsynlegt til viðhalds og varnar fyrir þjóðina. Við ætlum að stofna samfélagsbanka sem mun skila hagnðinum heim, þ.e. til þjóðarinnar. Við ætlum að breyta lífeyriskerfinu sem mun minnka kostnað og lækka iðgjöld sem mun auka kaupmátt almennings. Þess vegna telur Dögun sig hafa fjármuni til að efla starf lögreglunnar.

 

Við þökkum erindi ykkar til Dögunar,

 

mbkv.

 

Stjórnmálasamtökin Dögun.

 

Flokkur fólksins:

 

– Ekkert svar borist föstudaginn 28. október kl. 18:45.

 

Framsóknarflokkurinn:

 

– Ekkert svar borist föstudaginn 28. október kl. 18:45.

 

Húmanistaflokkurinn:

 

– Ekkert svar borist föstudaginn 28. október kl. 18:45.

 

Íslenska þjóðfylkingin:

 

– Ekkert svar borist föstudaginn 28. október kl. 18:45.

 

Píratar:

 

Góðan dag,

 

Kærar þakkir fyrir bréfið sem okkur barst um daginn. Okkur þykir vænt um að fá að koma okkar sjónarmiðum að meðal lögreglumanna, en næstum allar stefnur stjórnmálanna viðurkenna að ríkið þarf að vernda borgara og tryggja að leikreglum samfélagsins sé fylgt. Píratar hugsa mikið um réttindi borgara og stöðu þeirra í samfélaginu og eru því fullmeðvitaðir um mikilvægi lögreglunnar.

 

Grunnstefna Pírata leggur mikla ábyrgð á ríkisvaldið til að vernda borgara og tryggja borgararéttindi þeirra. Þar spilar lögreglan veigamikið hlutverk, en ber einnig mikla ábyrgð. Það að ríkisvaldið beiti valdi er óumflýjanlegt í ákveðnum tilvikum, en á ekki að beita nema í ítrustu neyð. Menntun og þjálfun lögreglumanna er stærsti þátturinn í þeirri jafnvægislist sem valdbeiting er, sérstaklega menntun í gagnrýninni hugsun og siðfræði.

 

Kjaramál lögreglumanna eru Pírötum mjög hugleikin. Það er óeðlilegt að lögreglumenn geti ekki boðað til verkfalls, eins og aðrar stéttir sem sinna neyðarþjónustu, og veikir það stöðu stéttarinnar í kjarasamningum. Helgi Hrafn Gunnarsson var einmitt einn flutningsmanna frumvarps um að endurvekja verkfallsrétt lögreglumanna á síðasta þingi. Óljós loforð um viðmiðunarhópa og breytingar eftir einhver ár á ekki heima í kjaraviðræðum. Það er alltof auðvelt fyrir stjórnvöld að ganga á bak orða sinna þegar standa þarf fyrst við skuldbindingar, svo við loforð.

 

Starfsálag lögreglumanna er of mikið. Slíkt leiðir til mistaka, og mistök innan lögreglunnar hafa bein áhrif á sýn fólks á ríkisvaldið og samfélagið. Of mikið starfsálag hefur því bein áhrif á öryggistilfinningu borgaranna og traust til lögreglunnar. Tryggja þarf að lögreglan hafi nægt svigrúm til að starfa þannig að henti þjóðfélaginu og lögreglunni sem best. Andlega álagið við lögreglustarfið er nægilega mikið án þess að viðvarandi undirmönnun sé bætt þar ofan á. Fjölgun vinnuslysa er alls staðar ólíðandi, en sérstaklega þarf að huga að þeim starfsvettvöngum sem eru hættulegir til að byrja með.

 

Ljóst er að viðbúnaðarstig lögreglu þarf að vera nægilega hátt til að geta brugðist við þeim ógnum sem steðja að Íslandi. Á það jafnt við um viðbragðsflýti í útköllum (sérstaklega í dreifðari byggðum landsins), öflugar rannsóknardeildir og þær bjargir sem almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra treystir á. Píratar hafa ekki myndað sér stefnu um forvirkar rannsóknarheimildir sem ítrekað hefur verið óskað eftir að verði að lögum. Þriðja grein grunnstefnu Pírata fjallar þó einmitt um þetta mál, þ.e. réttinn til friðhelgi einkalífsins og skilgreina Píratar friðhelgi einkalífsins sem vernd hinna valdaminni gegn misbeitingu hinna valdameiri. Ólíklegt verður að telja að Píratar muni samþykkja forvirkar rannsóknarheimildir eins og þær hafa verið kynntar.

 

Píratar vilja að ákvörðunarvald sé að sem mestu leyti í höndum þeirra sem ákvarðanirnar hafa áhrif á og vita um hvað málið snýst. Því hefði okkur t.d. þótt eðlilegt að lögreglumenn hefðu haft meira um að segja hver afdrif lögregluskóla ríkisins hefðu átt að vera. Menntaðir lögreglumenn hafa bæði verið í lögreglunámi og hafa reynsluna til að segja til um hvað þarf að kenna, því liggur í augum uppi að þar þarf að leita fanga við ákvarðanatökuna.

 

Píratar vilja að lögreglan hætti að berjast við vindmyllur þegar kemur að neytendum vímuefna. Þeir sem kunna sér ekki hóf í neyslu ber að aðstoða innan heilbrigðiskerfisins, ekki refsa. Ljóst er að álag á starfstéttina myndi minnka til muna ef hugmyndir Pírata í afglæpavæðingu vímuefna myndu ná fram að ganga. Áhugavert yrði líka að sjá hvernig samskipti lögreglu og neytenda vímuefna muni breytast ef þessi stefna verður að veruleika og í leiðinni verður hægt að nýta krafta lögreglunnar betur á öðrum sviðum.

Við erum ekki að lofa einhverjum ákveðnum fjárhæðum til að tækla vandamál lögreglunnar því að við teljum að það þurfi að hugsa hlutverk lögreglunnar upp á nýtt á vissum sviðum. Við teljum að þörf sé á breytingum á mun víðari grunni en að lofa upp í ermina á okkur.

 

Kærar þakkir fyrir bréfið og vonandi fær svar okkar dreifingu meðal félagsmanna ykkar.


Píratakveðja!

 

Samfylkingin:

 

Til Landssambands lögreglumanna


Efni: Áherslur Samfylkingarinnar í löggæslumálum


Samfylkingin telur brýnt að styrkja löggæsluna í landinu. Hún hefur ekki notið uppgangs síðustu ára. Þeirra þróun verður að snúa við á strax á næsta ári á það munum við leggja áherslu við fjárlagagerð nú að loknum kosningum.

Fækkun lögreglumanna og aukin slysatíðni hjá þeim er grafalvarlegt mál sérstaklega þegar á sama tíma bíða ný og kostnaðarsöm verkefni hjá lögreglunni. Við leggjum áherslu á fjármagna átak sveitarfélaga og lögreglunnar gegn heimilisofbeldi.


Álag á lögreglu hefur aukist um allt land vegna ferðamanna allt frá árinu 2012 þegar mikil fjölgun varð á komum erlendra ferðamanna. Lögreglumönnum hefur ekki fjölgað í takt við fjölda mála og þjónusta við íbúa hefur setið á hakanum. Við þessu verður að bregðast. Við viljum að ferðamenn sem hingað koma borgi meira í sameiginlega sjóði til að standa undir útgjöldum. Einfaldast leiðin og jafnframt sú sem skilar hvað mestum tekjum er að afnám undanþágu ferðamanna frá virðisaukaskatti vegna gistingar og afþreyingar. Á það leggjum við í Samfylkingunni

áherslu.


Virðingarfyllst,


Oddný Harðardóttir

formaður Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands

 

Sjálfstæðisflokkurinn:

 

– Ekkert svar borist föstudaginn 28. október kl. 18:45.

 

Viðreisn:

 

Boðaði fulltrúa LL til fundar í húsakynnum flokksins.  Fundinn sátu af hálfu LL þeir, Snorri Magnússon, formaður og Baldur Ólafsson ritari.  Í kjölfar fundarins rituðu tveir fulltrúa Viðreisnar, sem sátu fundinn, þau Jón Steindór Valdimarsson og Anna Sigríður Gunnlaugsdóttir, þessa grein í Fréttablaðið og á visir.is

 

Vinstri hreyfingin – grænt framboð:


– Ekkert svar borist föstudaginn 28. október kl. 18:45.


Sérstaklega var farið fram á það, í bréfi LL, að svör við þeim spurningum sem fram koma í bréfinu, ásamt stefnu viðkomandi flokks í málefnum löggæslu, yrðu send rafrænt til flýta fyrir innsetningu þeirra á heimasíðu LL þ.a. félagsmenn LL gætu, í komandi kosningum tekið upplýsta ákvörðun um notkun atkvæðisréttar síns.  Vel kann að vera að svör frá einhverjum flokkum kunni að vera á leiðinni með venjulegum bréfpósti en hér að ofan er að finna þau svör sem borist hafa rafrænt til skrifstofu LL.


Þá er einnig rétt að geta þess sérstaklega að aðeins einn stjórnmálaflokkur fann sig knúinn til að kalla eftir fundi með fulltrúum LL, eftir að hafa móttekið tilvitnað bréf en það er Viðreisn.  Fundinn sátu, af hálfu LL, Snorri Magnússon, formaður og Baldur Ólafsson, ritari.  Í kjölfar fundarins rituðu tveir fulltrúar Viðreisnar á fundinum, þau Jón Steindór Valdimarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þessa grein á visir.is (birtist einnig í Fréttablaðinu).

Til baka