Fréttir

Forseti Íslands tekur þátt í kyndilhlaupi lögreglumanna

22 nóv. 2016

Forseti Íslands mun taka þátt í kyndilhlaupi lögreglumanna og setja Íslandsleika Special Olympics 2017.

Special Olympics á Íslandi og Knattspyrnusamband Ísland standa að árlegum Íslandsleikum í knattspyrnu, sunnudaginn 27. nóvember 2016 kl. 14:00 – 16:00 í Reykjaneshöllinni.  Keppt er í tveimur styrkleikaflokkum en markmið Special Olympics samtakanna er að skipuleggja keppni sem gefur öllum jöfn tækifæri.  Fjölmargir keppendur á leikunum hafa fengið tækifæri til keppni í knattspyrnu á alþjóðaleikum Special Olympics, síðast í LA árið 2015.  ÍF og KSÍ hafa verið í áralöngu samstarfi þar sem markmið er að efla knattspyrnuiðkun fyrir fólk með fötlun.  Unnið er að því að efla þátttöku kvenna en einnig hefur verið innleitt verkefnið „unified football“ þar sem fatlaðir og ófatlaðir spila sama í liðum.

Forseti Íslands mun taka þátt í kyndilhlaupi lögreglumanna og setja Íslandsleika Special Olympics ásamt lögreglu og íþróttamanni.  Leikarnir verða settir kl. 14:00 að loknu kyndilhlaupi.

Á Íslandsleikunum í Reykjanesbæ mun Ísland í sjöunda skiptið taka þátt í alþjóðlegu samstarfsverkefni lögreglunnar og Special Olympics – LETR.  Special Olympics á Íslandi hóf samstarfi við lögregluna árið 2013 og frá þeim tíma hafa íslenskir lögreglumenn hlaupið kyndilhlaup fyrir Íslandsleika og tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum vegna Evrópuleika 2014 og alþjóðaleika 2015.

Næsta verkefni LETR á Íslandi, verður þátttaka í kyndilhlaupi vegna alþjóðavetrarleika Special Olympics 2017

Kyndilhlaupið

Kyndillinn verður tendraður hjá lögreglustöðinni á Hringbraut 130, Keflavík, kl. 13:30.

Þaðan verður skokkað norður Hringbraut, beygt til austurs inn á Vatnsnesveg og skokkað uppá Hafnargötu, þar verður beygt suður Hafnargötu og áfram að Hringtorgi Hafnargötu/Þjóðbrautar/Njarðarbraut (Reykjavíkurtorg) og beygt vestur Þjóðbraut.  Á Þjóðbraut verður stoppað við húsnæði Brunavarna Suðurnesja (slökkvistöðin) og slökkt á kyndlinum meðan bætt er á hann meiri olíu.  Síðan verður skokkað áfram Þjóðbraut og í gegnum hringtorgið Lundúnartorg, Hringbraut/Þjóðbraut/Frekjan, áfram vestur Þjóðbraut og að hringtorginu Parísartorg, Þjóðbraut/Sunnubraut, farið réttsælis í gegnum hringtorgið og að íþróttahúsinu.

Nánar um LETR –( Law Enforcement Torch Run)

Lögreglumenn og konur um allan heim hafa tekið þátt í því að hlaupa með logandi kyndil að keppnisstöðum þar sem eldur leika SPECIAL OLYMPICS er kveiktur.  Markmið kyndilhlaupsins er að vekja athygli á leikum samtakanna.  Ísland leggur fyrst og fremst áherslu á að skapa jákvætt samstarf þar sem ávinningur samstarfs skilar sér til beggja aðila, Special Olympics á Íslandi og íslensku lögreglunnar.  Góð ímynd er mikilvæg í öllu starfi Special Olympics og sama gildir um starf lögreglumanna um allan heim.  Það er því vel við hæfi að tengja saman þessa ólíku hópa í verkefni sem sameinar og hvetur til þátttöku, jafnt í heimalandi sem á alþjóðavettvangi.

SPECIAL OLYMICS er alþjóðaheiti – sem má ekki þýða á íslensku. Samtökin voru stofnuð árið 1969 af Kennedyfjölskyldunni.  500 íslenskir keppendur með þroskahömlun /sérþarfir hafa keppt á alþjóðaleikum sem haldnir eru fjórða hvert ár.  Leikarnir fóru fram í USA til ársins 2003, en síðan þá hafa þeir verði haldnir í Evrópu og Asíu.

Til baka