Fréttir

Upplýsingar um breytingar á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins

17 jan. 2017

Eftirfarandi upplýsingar eru stutt samantekt um möguleg áhrif þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR), teknar saman til að reyna að varpa, í eins stuttu máli og hægt er, einhverju ljósi á innihald breytinganna og mögulegar afleiðingar þeirra.

 

 

Rétt er að taka það strax fram að þessar upplýsingar eru langt í frá tæmandi en skýra málið eigi að síður í hnotskurn.  Til þess að öðlast fulla innsýn í það er nauðsynlegt að lesa yfir nokkur hundruð blaðsíður af skýrslum, greinargerðum, útreikningum og athugasemdum svo eitthvað sé tínt til.  Sumt af því efni er hægt að nálgast með því að fylgja hlekkjunum í textanum hér að neðan.

 

Til að halda því algerlega til haga strax hér í upphafi þá hefur þessi nýsamþykkta lagabreyting, á lífeyrismálum opinberra starfsmanna, ENGIN ÁHRIF á þá sem eru í B-deildinni.  Það var ekkert hróflað við henni með þessum breytingum.

 

Kjarni málsins, varðandi A-deildina og lögreglumenn er í raun – í mjög stuttu máli – eftirfarandi:

 

  1. Lífeyristökualdur okkar helst óbreyttur – 65 ár.
  2. Reiknireglan vegna flýtts lífeyristökualdurs fellur út úr lögunum um LSR og færist inn í samþykktir lífeyrissjóðÞetta getur, til lengri tíma litið, komið okkur illa þar sem það er jú hægt að breyta samþykktum sjóðsins með afar stuttum fyrirvara en lögum er hinsvegar ekki breytt á einni nóttu.
  3. Það koma til skerðingar á bótum vegna t.d. maka-, barna- og örorkulífeyris (sjá t.d. nánar í skýrslu sem Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga lét Dr. Oddgeir Ágúst Ottesen, vinna fyrir sig bls. 6 í skýrslu Oddgeirs sem er meðfylgjandi umsögn félagsins: https://www.althingi.is/altext/erindi/146/146-67.pdf).
  4. Það er yfirlýst að þeir sem orðnir verða 60 ára, þegar breytingarnar ganga í gegn, eiga ekki að skerðast í lífeyri þegar kemur að tökuStaðreynd málsins er hinsvegar sú að það „viðbótarfjármagn“ sem ríkisvaldið leggur sjóðnum til, mun að öllum líkindum ekki duga til að dekka muninn sem er á réttindum á milli almenna- og opinbera markaðarins (já við fáum umtalsvert hærri lífeyri úr opinberu sjóðunum en greiddur er úr almennu sjóðunum – nema ef vera kynni að einhverjir væru með „eigin“ lífeyrissjóð, t.d. Allianz).  Sjá nánar á bls. 9 – 12 í skýrslu Dr. Oddgeirs.
  5. Þeir sem eru yngri en 60 ára þegar breytingarnar ganga í gegn munu nánast alveg örugglega fá lægri lífeyri en þeir sem eru 60 ára viðÞað er hinsvegar ekkert um það vitað, á þessari stundu, hver mismunurinn gæti orðið né hvenær slíkar mögulegar skerðingar gætu komið til.
  6. A-deildin felllur undir lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, þ.e.a.s. almennu lífeyrissjóðalögin (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997129.html).
  7. Það að færa A-deildina undir almennu lífeyrissjóðalögin getur haft þær afleiðingar (og mun nánast örugglega gera það einhvern tíma til framtíðar litið) að það þurfi að koma til réttindaskerðinga einhvern tíma til að sjóðurinn nái markmiðum sínum um jafnvægi í rekstri og ávöxtun (sjá nánar lögin um sjóðina (https://www.althingi.is/lagas/nuna/1997129.html) sem og reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 39/1998, með síðari breytingum (https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/fjarmalaraduneyti/nr/1929)).
  8. „Viðbótarfjármagninu“ sem ríkið leggur A-deildinni til, vegna breytinganna er ætlað að koma í veg fyrir að það þurfi að koma til réttindaskerðinga síðar – gagnvart þeim sem verða orðnir 60 ára þegar lögin taka gildi þann 1. Júlí n.k. – en eins og ég skrifa hér að ofan (4. tl.) er nánast öruggt að fjármagnið mun ekki duga til að dekka mismuninn!

Allt ofangreint o.fl. eru þær ástæður sem LL benti á þegar við greiddum atkvæði GEGN því að BSRB skrifaði undir samkomulagið við fjármálaráðherra þann 19. september s.l.  Það hefur svo komið á daginn, eins og alþjóð veit, að fjármálaráðherra setti fram lagafrumvarp sem gekk í berhögg við samkomulagið sem undirritað var af BSRB, BHM og KÍ!!  Þar reyndist úlfur í sauðagæru, eins og ég hafði reyndar ítrekað varað við bæði á stjórnar- og formannaráðsfundum BSRB!!  Það var hinsvegar ekkert hlustað á varnaðarorð mín eða formanna hinna félaganna þriggja innan BSRB, þ.e. Sjúkraliðafélagsins, Tollvarðafélagsins og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, í þessum efnum!

Rétt er hér einnig að halda því til haga að EKKERT var einu sinni rætt við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga um þessar breytingar þar sem félagið stendur utan heildarbandalaga stéttarfélaga og ríkisvaldið lítur svo á að séu stéttarfélög opinberra starfsmanna utan heildarbandalaga þá hafi þau einfaldlega ekkert um mál sem þetta að segja.  Félagið vissi þ.a.l. ekkert um hvað var í gangi fyrr en ég hringdi í formann þess þegar þetta var allt í vinnslu í byrjun september s.l. og benti formaðurinn m.a. á þá staðreynd á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þegar við vorum kölluð þangað vegna umsagnar LL um frumvarpið (https://www.althingi.is/altext/erindi/146/146-81.pdf).

 

Fyrir þá sem áhuga hafa og tíma bendi ég sérstaklega á til lestrar, auk umsagnar LL um frumvarpið, umsögn Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga og skýrslu þá sem kjarafélagið lét vinna fyrir sig og fylgir umsögninni (https://www.althingi.is/altext/erindi/146/146-67.pdf).  Í skýrslunni sést m.a., svart á hvítu, samanburðurinn á þeim lífeyrisréttindum, sem koma klárlega til með að skerðast, og ég nefni til sögunnar í tl. 3 og 4. hér að ofan.

 

Til viðbótar ofangreindu má einnig nefna það að einhver hluti lögreglumanna stóð frammi fyrir vali árið 1997 um það hvort þeir yrðu áfram í B-deildinni (sem breytist ekkert né skerðist) eða færðu sig yfir í A-deildina (sem breytist talsvert og nánast örugglega skerðist til lengri tíma litið).  Þessir lögreglumenn, sem og aðrir opinberir starfsmenn sem voru í sömu sporum árið 1997 geta nær örugglega höfðað mál á hendur ríkinu vegna þessa forsendubrests (eignaupptaka án bóta).

Félögin fjögur (LL, SLFÍ, TFÍ og LSOS) munu láta skoða þennan lagagrundvöll nánar strax á nýju ári en niðurstaða þeirrar skoðunar mun koma til með að markast eitthvað af hliðstæðu máli sem er í gangi fyrir héraðsdómi og varðar lífeyrissjóð bankamanna.

Þá er rétt að nefna það einnig, sem væntanlega hefur ekki farið fram hjá mörgum, að KÍ hefur þegar lýst því yfir að það muni höfða mál gegn ríkinu vegna þessara lagabreytinga.

 

Hér er svo, að síðustu, tengill inn á allar umsagnir sem efnahags- og viðskiptanefnd bárust vegna frumvarpsins:

https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalin/erindi/?ltg=146&mnr=6

 

Umsagnir LL vegna frumvarpanna tveggjar eru hér:

 

Fyrra frumvarpið:  https://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-2209.pdf

 

Síðara frumvarpið: https://www.althingi.is/altext/erindi/146/146-81.pdf

Til baka