Fréttir

Formannaráðstefna LL 2017

4 maí. 2017

Miðvikudaginn 3. maí s.l. var formannaráðstefna LL haldin í fundarsal á fyrstu hæð BSRB hússins.  Ráðstefnan fór fram með hefðbundnu sniði og skv. dagskrá sbr. 16. laga LL.

 

Í upphafi ráðstefnunnar flutti Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) fræðsluerindi um þær breytingar sem verða á starfsemi A-deildar LSR við gildistöku nýrra laga um LSR þann 1. júní n.k.  Hægt er að nálgast upplýsingar um þessar breytingar á heimasíðu LSR.  Þar er einnig að finna upplýsingar um fyrirhugaða kynningarfundi á vegum sjóðsins víðsvegar um landið á næstu dögum og vikum.  Félagsmenn LL eru hvattir til að sækja þessa fundi og leggja þar fram spurningar sem kunna að brenna á þeim varðandi breytingarnar á A-deildinni.

 

 

Fyrir formannaráðstefnunni lá tillaga, studd undirskriftum rúmlega þrjátíu (30) félagsmanna LL um að:

 

“Fram fari atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna LL um úrsögn úr Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, frá og með áramótum 2017 – 2018”,

 

Jafnframt að:

 

“Áður en til atkvæðagreiðslu komi beiti stjórn LL sér fyrir því að fram fari könnun á rökum með og á móti aðild að BSRB, til að hinn almenni félagsmaður geti gert upp hug sinn í málinu á upplýstum grunni.”

 

Það er skemmst frá því að segja að tillaga þessi var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæðisbærra fulltrúa á formannaráðstefnunni og hefur formanni og stjórn BSRB þegar verið gerð grein fyrir niðurstöðu ráðstefnunnar.

 

Um úrsögn aðildarfélags úr BSRB fer skv. 6. gr. laga BSRB.

 

Í samráði við flutningsmann tillögunnar var ákveðið að settur yrði saman vinnuhópur sex (6) lögreglumanna, þriggja (3) sem yfirlýstir eru úrsögn úr BSRB og þriggja (3) sem yfirlýstir eru áframhaldandi veru LL innan BSRB, til að setja saman þá skýrslu sem minnst er á hér að ofan skv. tillögunni, sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en hægt verður að fara í allsherjaratkvæðagreiðslu um mögulega úrsögn LL úr BSRB.  Vonir standa til að skýrsla þessi geti legið fyrir á haustmánuðum þ.a. í framhaldi af henni væri hægt að fara í kynningarferð um landið til að kynna innihald hennar fyrir félagsmönnum LL.  Um atkvæðagreiðslu um úrsögn úr BSRB og annað tengt henni er einnig fjallað um í 6. gr. laga BSRB.

 

Hafi lögreglumenn sérstakan áhuga á að starfa í ofannefndum vinnuhópi geta þeir hinir sömu lýst yfir áhuga sínum með því að senda tölvupóst á netfangið ll@logreglumenn.is  

 

Að aflokinni formannaráðstefnunni fór, skv. venju fram veiting heiðursmerkja LL, þar sem afhent voru 12 bronsmerki og 12 silfurmerki til lögreglumanna vegna félagsstarfa þeirra fyrir lögreglumenn. 

Til baka