Fréttir

Hækkaðar fjárveitingar til sænsku lögreglunnar

21 ágú. 2017

í frétt á sænska ríkisfjölmiðlinum SVT kemur fram að sænska ríkisstjórnin hafi ákveðið að hækka fjárframlög til lögreglunnar í Svíþjóð um 2 milljarða sænskra króna á komandi ári.  Svarar þetta til um 26 milljarða íslenskra króna.

 

Á blaðamanna fundi sem Stefan Löfven, forsætisráðherra og Morgan Johanson, dómsmála- og innanríkisráðherra héldu í Eskilstuna í gær, sunnudaginn 20. ágúst, kemur fram að þessi hækkun fjárframlaga til löggæslu sé hluti af 7,1 milljarðs sænskra króna hækkun til næstu þriggja ára eða samtals um 93 milljarða íslenskra króna.

 

Hækkunin er tilkomin, skv. forsætisráðherranum, vegna m.a. þeirrar ógnar sem steðjar að sænsku samfélagi og hefur m.a. brotist út í fjölda skotárása víðsvegar um landið.  Þá réttlæti hann þessi auknu útgjöld einnig með því að sænskir borgarar hafa kvartað undan ósýnileika lögreglunnar sem og þeim staðreyndum að rannsóknir afbrota hafa setið á hakanum vegna manneklu í lögreglunni.  Vonast hann til þess að með þessum auknu fjárveitingum megi ráða fleiri lögreglumenn til starfa og bæta starfsskilyrði þeirra sem og launakjör.

 

Í Expressen er einnig fjallað um þessar auknu fjárveitingar og er þar m.a. vitnað til greinar í Polistidningen þar sem segir af lögreglukonunni Carinu Beck, sem jafnframt er formaður lögreglufélagsins í suður Stokkhólmi en hún hefur sagt starfi sínu lausu til að taka við betur launuðu starfi innan sænsku ríkisíþróttahreyfingarinnar.  Í nýja starfinu mun Carina hafa í laun rúmlega 40.000 sænskar krónur í mánaðarlaun eða sem svarar rúmum 524.000 íslenskra króna í stað þeirra 29.500 sænskra króna – rúmlega 386.000 íslenskar krónur – sem hún hefur í laun í lögreglunni eftir 10 ára starf. 

 

Í athyglisverðum leiðara Expressen frá 11. apríl s.l. var fjallað ítarlega um þá miklu manneklu sem er í lögreglunni í Svíþjóð.

 

Þá fjallaði mbl.is einnig um þessar auknu fjárveitingar til sænsku lögreglunnar.

Til baka