Fréttir

Nýútkomin skýrsla greiningardeildar RLS staðfestir orð LL um stöðu löggæslumála á Íslandi

24 okt. 2017

Út er komin ný skýrsla greiningardeildar Ríkislögreglustjórans „Skipulögð glæpastarfsemi 2017 – Mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi“ en fjallað er um úkomu hennar m.a. á mbl.is og visir.is.

 

Í skýrslunni er staðfest það sem LL hefur verið að halda fram undanfarin misseri um m.a. ástand löggæslumála, fjárskort, manneklu, álag sem og veikindi og slys á lögreglumönnum en um það má m.a. lesa á bls. 4 í skýrslunni þar sem byggt er á svörum lögregluliðanna í landinu við spurningum sem lagðar voru fyrir þau við gerð skýrslunnar:

 

„ Skipulögðum brotahópum hefur vaxið ásmegin.

 Nýir brotahópar hafa myndast.

 Framboð sterkra fíkniefna er mikið.

 Framboð kannabisefna er mikið.

 Framboð vændis hefur aukist mikið og það kann, í einhverjum tilvikum hið minnsta, að tengjast mansali og skipulagðri glæpastarfsemi.

 Sterkur grunur er á vinnumansali.

Skortur á lögreglumönnum þ.m.t. rannsóknarlögreglumönnum.

Ekki fer fram nægileg frumkvæðisvinna vegna manneklu og fjárskorts.

 Víða á landsbyggðinni verður þess ekki vart að skipulagðir hópar afbrotamanna hafi myndast en tengingar við slíka hópa eru til staðar.

 Þjófnuðum, innbrotum og innbrotahrinum hefur almennt fækkað.

Verkefnum lögreglu hefur fjölgað.

Lögreglan glímir við aukið álag.

Fjarvist vegna veikinda og slysa hefur aukist.

 

 Í skýrslunni (bls. 6) segir ennfremur um hið aukna álag á lögreglunna, sem skýrslan staðfestir:

 

„Eftir því sem skipulögð glæpastarfsemi eykst og verður alvarlegri hefur hún meiri áhrif á öryggisstigið í landinu. Álag á almenna löggæslu og rannsóknardeildir eykst auk þess sem slíkt kallar á stóraukna frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna.“

 

 Og áfram nokkru síðar á sömu bls.:
 
„Lögreglunni hefur ekki verið gert kleift að fylgja eftir þróun og breytingum samfélagsins. Frumkvæðislöggæsla krefst mannafla og fjármuna til lengri tíma. Í stað þess að lögreglumönnum væri fjölgað til þess að efla frumkvæðislöggæslu á sviði afbrotavarna fækkaði lögreglumönnum stórlega frá árinu 2007 og draga þurfti úr starfsemi lögreglu á öllum sviðum. Þessi skortur á frumkvæðislöggæslu gerir það að verkum að lögreglan fylgir ekki nægilega vel samfélagsþróun og býr þannig ekki yfir nauðsynlegri getu til að takast á við breytingar sem fylgja t.a.m. alþjóðavæðingu og skipulagðri glæpastarfsemi þvert yfir landamæri.“
 
Af ofangreindu, sem og lestri skýrslunnar allrar má sjá að þau orð sem LL hefur haft uppi um stöðu lögreglunnar undanfarin misseri hafa í öllum tilfellum reynst rétt og er það í raun dapurlegt til þess að hugsa að stjórnvöld hafi virt þau aðvörunarorð að vettugi ár eftir ár og í stað þess að fjölga lögreglumönnum, auka við fjárveitingar til löggæslu og leiðrétta launakjör stéttarinnar þ.a. lögreglumenn haldist í störfum sínum þrátt fyrir uppgang í efnahagslífi þjóðarinnar, skuli vera kosið að fara í þveröfuga átt.
 
Tölfræði o.fl. upplýsingar sem styðja við orð LL í þessum efnum, undanfarin ár, má m.a. lesa í þessum fréttum á vef LL:
 
„Lögga á nærbuxunum“ – dags. 2. desember 2010
„Lokaðar lögreglustöðvar“ – dags. 5. júlí 2010
 
Ofangreindur listi er langt í frá tæmandi og tekur heldur ekki yfir viðtöl í prent- og/eða ljósvakamiðlum um ástandið í löggæslumálum á Íslandi.
 
Einnig er hægt að lesa um þessar staðreyndir í skýrslu Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, um „Stöðu lögreglunnar“ sem kom út í desember 2012.
 
Þá er einnig vert að benda á ráðstefnu sem haldin var þann 15. mars 2017, undir yfirskriftinni „Álag og fjölgun slysa hjá lögreglunni“.

Til baka