Fréttir

Löggæsla og samfélagið – ráðstefna 21. febrúar 2018

24 nóv. 2017

Löggæsla og samfélagið

ráðstefna 21. febrúar, 2018


„Löggæsla í dreifbýli“


Kallað eftir ágripum

Kallað er eftir ágripum erinda fyrir ráðstefnuna „Löggæsla og samfélagið“ sem Lögreglufræði við Háskólann á Akureyri heldur miðvikudaginn 21. febrúar, 2018. Ráðstefnan er ætlaður sem vettvangur þar sem fagfólk og fræðimenn reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. Einstaklingar og hópar sem starfa á fræða- og/eða fagsviðum sem snerta löggæslu eru hvattir til þess að senda inn ágrip af erindum sem byggja á eigin rannsóknum og/eða starfi.

 

Lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar endurspegla þema ráðstefnunnar, sem að þessu sinni er löggæsla í dreifbýli. Alla jafna eru færri afbrot framin í dreifbýli en þéttbýli og endurspeglast þessi staðreynd í þeirri friðsælu hugsýn sem margir hafa af dreifðum byggðum. En þar er ekki öll sagan sögð. Víða um heim hefur orðið vitundarvakning um þær sérstöku áskoranir sem löggæsla í dreifbýli felur í sér (s.s. dulin afbrot, langar vegalengdir, minni stuðningur, mikill sýnileiki lögreglumanna og nálægð þeirra við nærsamfélagið). Þess fyrir utan eru dreifðar byggðir langt í frá einsleitar.

Að gefnu tilefni óskum við sérstaklega eftir erindum sem lúta að löggæslu í dreifbýli, en öll erindi sem snúa að löggæslu almennt eru miklu meira en velkomin. Sem fyrr segir er ráðstefnan hugsuð sem sameiginlegur vettvangur fyrir fræða- og fagfólk til þess að koma rannsóknum sínum og reynslu af löggæslu hérlendis sem erlendis á framfæri og deila með leikum sem lærðum.


Lykilfyrirlesarar verða kynntir þegar nær dregur


Gagnlegar upplýsingar:

• Ráðstefnan fer fram miðvikudaginn 21. febrúar  í Miðborg Háskólans á Akureyri, nánar tiltekið í stofu N101 og N102. Ráðstefnan hefst stundvíslega kl. 9:00 og stendur til 17:00.

• Almenn erindi skulu ekki taka ekki lengri tíma en 20 mínútur og fyrirspurnir í kjölfarið ekki lengur en 10 mínútur. Ágrip af erindum (hámark 250 orð) skulu berast eigi síðar en þriðjudaginn 15. janúar á netfangið goddsson@unak.is„>goddsson@unak.is. Af gefnu tilefni skal áréttað að ágripið á að innihalda titil, stutta lýsingu á markmiði rannsóknar, aðferðum og helstu niðurstöðum eða lærdómi. Einnig þarf að fylgja starfsgrein eða staða höfundar og (ef um fleiri en einn er að ræða) röð höfunda.

• Ráðstefnugjald er 5.000 krónur á mann og eru ráðstefnugögn og kaffiveitingar innifaldar (greiðist á staðnum). Þátttakendur greiða sjálfir ferðakostnað, gistingu og mat. Háskólanemar frá frítt.

• Flugfélagið Icelandair Connect flýgur til Akureyrar (sjá flugáætlun á www.icelandairconnect.is)

• Viðburðinn má finna á Facebook undir nafni ráðstefnunnar og verður ýmsum upplýsingum deilt þar er líður nær ráðstefnunni. Sjá: „Löggæsla og samfélagið – ráðstefna 21. febrúar, 2018“

Hafið samband við Guðmund Oddsson vanti frekari upplýsingar (goddsson@unak.is„>goddsson@unak.is; 460-8677)

Til baka