Fréttir

Um áherslur nýrrar ríkisstjórnar í löggæslumálum

7 des. 2017

Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis er að finna, eins og við mátti búast, einn örlítinn kafli um löggæslu á bls. 12:

 

Löggæsla

 

Öflug löggæsla er ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggja fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum.

Ljúka þarf gerð þessarar áætlunar og vinna í samræmi við hana. Fleiri ferðamenn kalla á aukið fjármagn og styrkja þarf miðhálendislöggæslu yfir háannatíma. Tryggja þarf Landhelgisgæslunni nægilegt fjármagn til að rækja starf sitt.

Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna. Tryggja þarf fíklum viðunandi með- ferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis.“

 

Það er athyglisvert að lesa þennan kafla því hann segir í raun ekki neitt annað um löggæslu en margrítrekað hefur verið sagt áður og Landssamband lögreglumanna (LL) hefur bent á í ræðu og riti í áraraðir.  Þannig eru þau grunnhugtök, sem notast er við í 1. mgr. kaflans um löggæslu komin beint frá LL líkt og nánar verður rakið hér á eftir.


Ríkisfjármálaáætlun 2018 – 2022

 

Það verður afar fróðlegt að sjá hvort og þá með hvaða hætti þessi nýja ríkisstjórn hyggst vinna að þeim markmiðum sínum í löggæslu sem sett eru fram í þessum kafla því eins og komið hefur fram í fjölmiðlum ber nýlega samþykkt fjármálaáætlum fyrir árin 2018 – 2022 það berlega með sér að stefnt er að enn frekari fækkun lögreglumanna á Íslandi sbr. umsagnir lögreglustjóra landsins um áætlunina og fréttaflutning í því sambandi:

 

Umsögn Lögreglustjórafélagsins

 

Umsögn Ríkislögreglustjórans

 

Umsögn lögreglustjórans á Suðurlandi

 

Umsögn lögreglustjórans á Norðurlandi eystra

 

Umsögn lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu

 

Í umsögn Ríkislögreglustjórans um fjármálaáætlunina, dags. 27. apríl 2017, kemur m.a. eftirfarandi fram:

 

„Fjöldi lögreglumanna í dag er um 660 þannig að enn vantar um 50 lögreglumenn til að ná sama fjölda og var árið 2007. Áætlaður kostnaður við að ná sama fjölda lögreglumanna og var 2007 nemur um 1 millj. kr. Til þess að ná þeim markmiðum sem sett voru um að lögreglumenn skyldu verða 860 vantar um 3 millj.kr. Ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum til þessa í fjármálaáætluninni.“

 

Það væri til þess að æra óstöðugan að ætla sér að fjalla hér sérstaklega um afstöðu til, umsagnir um og ræður þingmanna stjórnarandstöðu þess tíma, um ríkisfjármálaáætlunina þegar hún var lögð fram, en rétt er þó að vekja athygli þeirra einstaklinga, sem nú kynnu að eiga sæti við nýtt ríkisstjórnarborð, á eigin orðum í þessum efnum og þá sérstaklega er kemur að málefnum löggæslunnar í ljósi hvorutveggja, þess sem sett hefur verið fram í þessum nýja stjórnarsáttmála og þess sem kann að hafa verið sagt og skrifað um málaflokkinn í umræðum um fjármálaáætlunina.


Grunnskilgreiningar – rekstrarhæfi lögreglunnar

 

Víkjum þá aðeins að þeim grunnskilgreiningum sem settar eru fram í stjórnarsáttmálanum og tilurð þeirra, þ.e.a.s.:


1. Öryggisstigi

2. Þjónustustigi

3. Mannaflaþörf og

4. Fjárveitingum.

 

Kjarabók LL frá því í ágúst 2008.

 

Í undirbúningi vegna kjaraviðræðna haustið 2008 setti LL fram áherslur sínar og sýn ásamt kröfum í riti sem fékk nafnið „Kjarabók LL“.  Á bls. 3 segir m.a.:

 

„Gegnumgangandi grunnkrafa Landssambands Lögreglumanna er einföld og skýr:

 

AÐ LÖGREGLUMÖNNUM VERÐI GREIDD LAUN Í SAMRÆMI VIÐ ÁBYRGÐ, ÁHÆTTU OG HÆFNI.

 

Og svo allnokkru síðar á bls. 37:

 

„Það er með öllu ólíðandi að lögreglustjórar skuli geta sparað með að ráða ekki í stöður eða leysa af menn sem fara í leyfi. Að stöður sem metnar séu nauðsynlegar séu látnar standa auðar þegar hentar til þess að spara.

 

Þá verður fjárveiting ríkisvalds til embætta að vera í samræmi við mannaflaþörf og raunkostnað við lögreglumenn en ekki að menn sníði stakk eftir fjárveitingu jafnvel þótt vitað sé að þeir séu undirmannaðir. Þá er ólíðandi að stöður séu mannaðar með stöðugri aukavinnu frekar en að ráða í stöður.

 

Skilgreina þarf lágmarksmannaflaþörf hvers embættis og tryggja að fjárveiting til embættanna og lögreglunnar í heild sé bundinn við það lágmark eða hærra til að hafa svigrúm í rekstri þeirra. Lágmarksmannaflaþörfin skal miðast við fulllærða lögreglumenn en ekki afleysinga- og héraðslögreglumenn.“

 

Bréf LL til Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra frá því í september 2008

 

Rétt um ári eftir að lögreglan á Íslandi hafði gengið í gegnum einhverjar stærstu skipulagsbreytingar allra tíma sendi Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra LL bréf (undir hlekknum hér á undan er einnig svarbréf LL til ráðherra) þar sem hann gerði grein fyrir hugmyndum sínum um frekari skipulagsbreytingar á og í lögreglu. 

 

Þarna og reyndar nokkru áður var LL þegar farið að setja fram þá hugmynd sína um ekki væri hægt að byggja upp né viðhalda löggæslu í lagi á Íslandi nema hafa til þess skýr markmið og grunnskilgreiningar.  Það væri enda ekki hægt til eilífðarnóns að endurskipuleggja starfsemi hins opinbera með það eitt að leiðarljósi að ná fram einhverri fjárhagslegri hagræðingu.  Það yrði einnig að líta til faglegu þátta starfseminnar og tryggja það að lögbundin þjónusta hins opinbera yrði ekki skert án þess að fyrir því lægju skýrar pólitískar forsendur og landsmönnum öllum yrði gerð grein fyrir því að markmið slíkra breytinga væri m.a. það að skerða þjónustu.  Það var því þannig, að í bréfi LL til Björns Bjarnasonar, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, sem sent var ráðuneyti hans þann 22. september 2008, sem svar við bréfi ráðherrans vegna hugmynda hans um endurskoðun lögreglulaga, að eftirfarandi var sett fram á bls. 2 í bréfinu:

 

„Þá telur LL telur að stjórnvöld, með Alþingi Íslendinga í fararbroddi, þurfí að leggja í viðamikla vinnu, í ljósi þess sem sett er fram í löggæsluáætlun 2007 – 2011; starfsmannastefnu lögreglunnar; áfangaskýrslu um mat á breytingum á nýskipan lögreglu; skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjórans um mat á hættu a hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, svo eitthvað sé nefnt og setja sér skýr markmið er kemur að eftirfarandi:

– öryggisstigi á Íslandi; 

– þjónustustigi lögreglu; 

– mannaflaþörf lögreglu til að halda úti hvorutveggja tilgreindu öryggis- og þjónustustigi; 

– tryggum fjárveitingum til reksturs lögreglunnar í samræmi við ofangreint.

 

Í þessari stefnumótunarvinnu þarf að taka um það pólitískar ákvarðanir hvaða verkefni það eru sem lögregla á og skal sinna og hvaða verkefnum, sem lögregla sinnir nú, megi útvista til einkaaðila.

 

Um öll ofangreind atriði þarf að vera full sátt áður en hægt verður að fara í frekari skipulagsbreytingar á löggæslu í landinu.“

 

Bréf LL til Alþingis vegna skipulagsbreytinga í lögreglu, dags. 6. maí 2010:

 

Á árinu 2010 var enn einu sinni komið að því að fara í skipulagsbreytingar á lögreglu og af því tilefni var lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögreglulögum. 

Í millitíðinni hafði embætti Ríkislögreglustjórans (RLS) verið falið það verkefni að rita skýrslu, í hverri fram kæmu skilgreiningar á grunnþjónustu lögreglunnar.  Við gerð skýrslunnar, sem kom út í október 2009 var lagt í gríðarmikla vinnu við að yfirfara öll verkefni lögreglu og skilgreina þau í flokka þ.a. greina mætti þau eftir mikilvægi þeirra.  Notast var við þær meginskilgreiningar sem LL hafði lagt áherslu á að þyrfti að notast við , þ.a. lögreglunni yrði tryggt eðlilegt rekstrarumhverfi, þ.e.a.s. 1) Öryggisstig; 2) Þjónustustig; 3) Mannaflaþörf og 4) Fjárveitingar.  Voru meginskilgreiningarnar settar fram með eftirfarandi hætti í skýrslu RLS (sjá bls. 5):


Grunnþjónusta

 

Af þessu tilefni ritaði LL bréf til allsherjar- og menntamálanefndar þingsins og gerði þar grein fyrir athugasemdum sínum vegna frumvarpsins.  Í þessu bréfi, sem og reyndar fjölmörgum öðrum sem LL hefur ritað allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna skipulagsbreytinga í lögreglu, vakti LL sérstaka athygli þingheims á eftirfarandi:

 

„Landssamband lögreglumanna hefur lagt á það áherslu, í ræðu og riti, að til að hægt sé að meta kostnað ríkissjóðs (lesist almennings í landinu) við það að tryggja öryggi borgaranna þurfi að eiga sér stað ákveðnar megin skilgreiningar og að þær þurfi að framkvæma í þessari röð:


1. Ákveða þarf öryggisstig í landinu, þ.e. hvaða öryggi Íslendingar eiga að búa við;


2. Ákveða þjónustustig lögreglu, þ.e. hvaða þjónustu lögregla á og á ekki að veita borgurunum (skattgreiðendum);

 

Þegar þessar tvær meginskilgreiningar liggja fyrir- og það er að mati LL í hlutverki Alþingis Íslendinga að ákvarða þessar tvær meginskilgreingar og setja fram í „Löggæsluáætlun” til samþykktar á Alþingi – þá fyrst er hægt að fara út í það að ákvarða:


3. Mannaflaþörf lögreglu út frá skilgreindum öryggis- og þjónustustigum;

 

Þegar þessar þrjár meginskilgreiningar liggja fyrir er fyrst hægt að skilgreina:


4. Fjárveitingar til lögreglu í samræmi við ofangreindar þrjár meginskilgreiningar.

 

Rétt er að halda því til haga hér, í tengslum við liði 1. og 2. hér að ofan að lauslega áætlað eru rúmlega eitthundrað (100) lög og á þeim byggjast rúmlega tvöhundruð og fimmtíu (250) reglugerðir sem kveða á um aðkomu og hlutverk lögreglu í hinum ýmsu verkefnum allt frá rannsóknum stórfelldra efnahagsbrota, líkt og eru til rannsóknar um þessar mundir í tengslum við hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008, upp í aðstoðarhlutverk vegna búfjársjúkdóma á borð við „fjárkláða”.“.

 

Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar árið 2011 (samþykkt 19. júní 2012)

 

Á 139. löggjafarþingi 2010 – 2011, á þingskjali 1576 – 862. mál lagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins fram tillögu til þingsályktunar um:

 

„grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland.

 

Ályktunin hljóðaði svo:

 

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að skipa nefnd hagsmunaaðila og fulltrúa allra þingflokka á Alþingi um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Nefndin hafi eftirfarandi hlutverk:


1. Að skilgreina öryggisstig á Íslandi.

2. Að skilgreina þjónustustig lögreglu.

3. Að skilgreina mannaflaþörf lögreglu.

4. Að skilgreina þörf lögreglunnar fyrir fjármagn.


Stjórnvöld skulu leitast við að veita nefndinni alla nauðsynlega aðstoð sem hún óskar eftir við störf sín, svo sem með því að veita upplýsingar og aðgang að gögnum og skýrslum stjórnvalda um málefni sem falla undir störf nefndarinnar. Jafnframt skal nefndin geta ráðfært sig við þá sérfræðinga sem hún telur þörf á.

Ráðherra leggi skýrslu nefndarinnar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2012.“

 

Flutningsmenn tillögunnar voru: Gunnar Bragi Sveinsson, Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Siv Friðleifsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Birgir Ármannsson, Kristján Þór Júlíusson, Einar K. Guðfinnsson.“

 

Það er athyglisvert að sjá hverjir voru meðflutningsmenn Gunnars Braga Sveinssonar að þessari þingsályktunartillögu og kannski sérstaklega í ljósi stöðu þeirra á þingi ýmist innan og utan ríkisstjórnar frá því að þessi ályktun var samþykkt. 


Hér er hægt að lesa framlagða tillögu Gunnars Braga og greinargerð með henni.

 

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra lagði svo fyrir Alþingi, þann 16. mars 2013, á 141. Löggjafarþingi 2012 – 2013 áfangaskýrslu vegna starfa nefndarinnar sem komið var á laggirnar með samþykkt þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar.  Síðan eru liðin fjögur (4) ár.

Nokkrum mánuðum áður hafði innanríkisráðherra lagt fyrir Alþingi skýrsluna „Staða lögreglunnar“ þar sem fram kom, svart á hvítu, hver raunveruleg staða löggæslu á Íslandi var og reyndar enn er.

 

Í ár eru liðin tíu ár frá umfangsmestu skipulagsbreytingum sem gerðar hafa verið á lögreglu á Íslandi.  Ýmsar aðrar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar frá þeim tíma, sem allar hafa haft það að meginstefi, að auka skilvirkni, ná fram aukinni hagræðingu í rekstri og án þess að skerða þjónustu! 


Ítarefni um skipulagsbreytingar í lögreglu er hægt að lesa hér á heimasíðu LL.


Það væri satt best að segja verðugt verkefni fyrir einhvern fræðimann – jafnvel Ríkisendurskoðun – að gera fræðilega og fjárhagslega úttekt á því hvernig til hafi tekist með allar þessar skipulagsbreytingar og hvort þær hafi náð að skila yfirlýstum markmiðum sínum, ekki síst fjárhagslegum. 

Eitt liggur fyrir í þessum efnum og vefst ekki fyrir í huga lögreglumanna en það er sú staðreynd að verkefni lögreglu hafa ekki horfið.  Álag á starfandi lögreglumenn hefur ekki minnkað.  Fjölgun lögreglumanna hefur ekki gengið eftir og fjárhagslegur rekstur embættanna er síst betri en hann var áður en farið var af stað í þá vegferð sem lögreglunni var hrint af stað í árið 2007.

Til baka