Fréttir

Skýrsla GRECO um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og löggæslu á Íslandi bi

11 apr. 2018

GRECO

 

Á vef stjórnarráðsins (sjá hér) er að finna fréttatilkynningu um útkomu skýrslu GRECO (samtök ríkja gegn spillingu – hluti af Evrópuráðssamstarfinu).  Skýrsla þessi, sem er fimmta úttekt GRECO á Íslandi mun formlega koma út n.k. fimmtudag en á ríkisstjórnarfundi í gær var samþykkt að birta hana opinberlega um leið og hún kæmi út.  Þessi fimmta skýrsla fjallar um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds og löggæslu á Íslandi.

 

Í fréttinni er að finna ábendingar, í átján (18) töluliðum sem beint er til löggæslu og stjórnvalda og rétt í þessu sambandi að benda sérstaklega á tl. 13 í ábendinum nefndarinnar:

 

“Hlutverk hæfnisnefndar við skipun í störf lögreglumanna verði eflt og komið verði á fót heilindamati í tengslum við stöðuveitingar innan lögreglunnar.  Þá verði það gert að meginreglu að lausar stöður innan lögreglunnar verði auglýstar og skipað í þær á grundvelli gagnsæs ferlis.”

 

Landssamband lögreglumanna hefur um langa hríð vakið athygli á því og m.a. sent erindi á Umboðsmann Alþingis, í hverju farið var fram á það að umboðsmaður hæfi frumkvæðisathugun einmitt á því hvernig málum væri háttað varðandi stöðuveitingar í lögreglu en því miður hefur alltof oft borið á því að ekki hafi verið farið að settum lögum og reglum er kemur að auglýsingum á lausum stöðum í lögreglu.  Mýmörg álit Umboðsmanns Alþingis í þessum efnum staðfesta ofanritað en hluta þeirra álita er hægt að nálgast á heimasíðu LL (sjá neðst á síðunni).

 

Það er skemmst frá því að segja að svör Umboðsmanns Alþingis, vegna erindis LL í þessum efnum, voru í meginatriðum á þá leið að vegna manneklu og fjárskorts gæti embættið ekki farið í umbeðna frumkvæðisathugun en myndi, að sjálfsögðu afgreiða kvartanir einstaklinga sem því bærist.  Með þessu sést greinilega hvernig löggjafarvaldið hefur hagað málum með þeim hætti að gera þeirri stofnun, sem ætlað er m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með stjórnvöldum og tryggja rétta og vandaða stjórnsýslu, á þá leið að stofnuninni er gert ómögulegt að sinna hlutverki sínu.

 

Nánar er fjallað um skýrslu GRECO á mbl.is og einnig í annarri frétt á mbl.is frá því í morgun (12.04.2018)

 

UPPFÆRT FIMMTUDAGINN 12. APRÍL KL. 11:16.

 

Á bls. 4 í Fréttablaðinu í dag er fjallað ítarlega um útkomu skýrslu GRECO um varnir gegn spillingu hjá æðstu handhöfum framkvæmdavalds og löggæslu á Íslandi þar sem m.a. er enn og aftur lögð áhersla á ábendingu nefndarinnar um auglýsingu á lausum störfum innan lögreglunnar og þann stjórnunarstrúktur sem hér hefur viðgengist þ.e.a.s. að dómsmálaráðherra, þrátt fyrir ákvæði lögreglulaga um að Ríkislögreglustjórinn fari með málefni lögreglunnar í umboði ráðherra, sbr. 4. gr. lögreglulaganna, fari sjálfur með beint boðvald yfir lögreglustjórunum.  Þá er einnig vakin sérstök athygli á þeirri staðreynd að lögreglumenn skuli skipaðir til fimm ára í senn og þar með sé í raun afar einfalt – og nánast án útskýringa – fyrir skipunarvaldshafann að framlengja ekki skipun ef honum “…líki ekki við einhvern, þá er tiltölulega auðvelt að framlengja ekki ráðningu viðkomandi…”.

 

Hægt er að lesa umfjöllun Fréttablaðsins á visir.is.

 

Skýrsluna sjálfa er hægt að nálgast hér.

Til baka