Fréttir

Samkomulag um styttingu vinnuviku dagvinnufólks

5 des. 2019

Samkomulag hefur náðst milli BSRB, og þar með Landssambands lögreglumanna, við alla viðsemjendur bandalagsins, ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, um útfærslu á styttingu vinnutíma starfsmanna í dagvinnu.

Næsta verkefni í kjaraviðræðum bandalagsins er að útfæra styttingu vinnuvikunnar fyrir vaktavinnufólk.

„Sú útfærsla sem sátt hefur náðst um varðandi styttingu vinnutíma dagvinnufólks hefur verið samþykkt með fyrirvara um að bandalagið nái ásættanlegri niðurstöðu í öðrum málum sem eftir er að leysa úr í kjaraviðræðunum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.  Ekki er hægt að fara nánar út í hvað felst í þeirri útfærslu á þessari stundu, enda kjaraviðræðurnar á borði ríkissáttasemjara og óheimilt að upplýsa opinberlega um það sem fram fer á fundum á meðan viðræður eru í gangi undir verkstjórn Ríkissáttasemjara.

Sonja segir það skýra kröfu BSRB að gengið verði lengra þegar kemur að styttingu vinnuviku vaktavinnufólks en dagvinnufólks, sem er í samræmi við þá stefnu sem mótuð var á 45. þingi bandalagsins haustið 2018.

Vinna við útfærslu styttingar vinnutíma vaktavinnufólks heldur áfram í næstu viku, auk þess sem áfram verður rætt um önnur mál sem aðildarfélög BSRB hafa falið bandalaginu að semja um.

Til baka