Fréttir

Kjarasamningar í höfn

9 mar. 2020

Nú í morgunsárið var gengið frá kjarasamningum við þau félög, innan BSRB, sem boðað höfðu verkföll þ.a. öllum áður auglýstum verkföllum aðildarfélaga BSRB hefur verið aflýst.

Samningarnir eru afturvirkir frá 1. apríl 2019 og gilda út 31. mars 2023.  Þau félög sem nú hafa undirritað samninga eru: Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu, Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélag Íslands, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu, Starfsmannafélag Fjallabyggðar, Starfsmannafélag Fjarðabyggðar, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja og Starfsmannafélag Vestmannaeyja.

Enn eiga fjögur aðildarfélög eftir að skrifa undir kjarasamning.  Það eru Landssamband lögreglumanna, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Félag starfsmanna stjórnarráðsins og Tollvarðafélag Íslands.  Búast má við að aukinn kraftur verði settur í viðræður þessara félaga nú þegar niðurstaða er komin í sameiginleg mál sem voru á borði BSRB.

Á næstu dögum munu félögin sem nú hafa undirritað kjarasamninga kynna samningana fyrir sínum félagsmönnum. Eftir að kynning hefur farið fram verða samningarnir bornir undir atkvæði félagsmanna.

Sjá nánari fréttir á heimasíðu BSRB og Sameykis.  Sjá einnig nánar um kjarasamning Sjúkraliðafélags Íslands á mbl.is.

Næsti fundurviðræðunefnda LL og ríkisins hefur verið boðaður n.k. föstudag, 13. mars, kl. 11:00.

Til baka