Fréttir

Stytting vinnuvikunnar

4 sep. 2020

Nú á að vera komin af stað, hjá opinberum stofnunum, vinna við það að stytta vinnuviku hvorutveggja dag- og vaktavinnufólks hjá hinu opinbera.

Í grunninn er lagt upp með það að á hverri stofunun skuli skipaður sérstakur vinnuhópur fyrir hvorn hóp fyrir sig þ.e.a.s. annarsvegar dagvinnufólk og hinsvegar vaktavinnufólk, sbr. upplýsingar sem er að finna á vefnum www.betrivinnutimi.is:

“Stytting vinnutíma í dagvinnu verður útfærð á hverri stofnun fyrir sig. Útfærslan getur því verið með mismunandi hætti og ræðst af því hvað hentar stofnun og starfsmönnum best. Því er mikilvægt að skoða vandlega alla þætti starfseminnar, verklag og vinnuferla, og til að leiða þá vinnu verður skipaður sérstakur vinnutímahópur á hverri stofnun. Starfsmenn velja sína fulltrúa í hópinn en auk þess verður hann skipaður fulltrúum sem forstöðumaður velur.  Vinnutímahópar munu hafa aðgang að fræðsluefni um hvernig best er að haga þessari vinnu auk upplýsinga um leiðir til að auka skilvirkni og framleiðni svo hægt verði að stytta viðveru starfsmanna. Vinnutímahópur á hverjum vinnustað boðar síðan til umbótasamtals þar sem starfsmenn og stjórnendur ræða sameiginlega hvaða vinnutímafyrirkomulag henti best. Í kjölfarið leggur vinnutímahópurinn fram tillögu sem starfsmenn greiða atkvæði um.”

Forstöðumönnum er ætlað að koma þessari vinnu af stað og leiða hana.

Til baka