Fréttir

Mikilvægar upplýsingar vegna kjarasamnings

17 sep. 2020

Kjarasamningurinn sem fulltrúar LL skrifuðu rafrænt undir við ríkisvaldið í Karphúsinu í gær, eftir langar samningaviðræður, gildir til vorsins 2023.  Hann kveður meðal annars á um krónutöluhækkanir og nýja launatöflu á samningstímanum.  Eins og fram kom hér á síðunni í gær er hann að fullu afturvirkur til 1. apríl 2019, en í því felst að lögreglumenn fara ekki á mis við þær almennu launahækkanir sem aðrir hópar samfélagsins hafa notið frá þeim tíma.

Landsamband lögreglumanna hefur þegar hafið vinnu við að undirbúa rafrænt kynningarefni til handa félagsmönnum, svo þeir geti gert upp hug sinn fyrir atkvæðagreiðslu sem fram fer að kynningu lokinni. Efnið verður sent á netföng allra félagsmanna.  Auk rafræns kynningarefnis verða fundir haldnir, sem þó taka mið af fyrirmælum stjórnvalda vegna COVID-19.

Í nýundirrituðum kjarasamningum felst að lögreglumenn munu njóta styttingu vinnuvikunnar eins og aðrar stéttir hafa samið um, en nánari upplýsingar um útfærslu þeirrar styttingar má finna hér að neðan. Þær eru af heimasíðu BSRB.

Stytting vinnuvikunnar í dagvinnu

Stytting vinnuvikunnar í vaktavinnu

Frekari upplýsingar má einnig finna á vefnum styttri.is og í þessari grein um styttingu vinnuvikunnar.  Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér þessi atriði.

Vefsíðan betrivinnutimi.is er á vegum Fjármálaráðuneytisins.  Þar er finna reiknivélar þar sem félagsmenn geta mátað sig inn í nýtt vinnuumhverfi út frá forsendum eldra kerfis.  Hafa þarf í huga svokallaðan vaktahvata þegar verið er að bera saman þær upplýsingar sem kerfið sýnir en markmiðið er að starfsmenn haldi að minnsta kosti sömu launum fyrir 36 stunda vinnuviku en þeir gerðu áður á 40 stundum.  Í sumum tilvikum, þegar vaktavinnufólk á í hlut, getur vinnuvikan orðið 32 tímar, án þess að laun skerðist.

Hér fyrir neðan má einnig finna ítarlegt kynningarefni á öðrum atriðum sem BSRB samdi um í sínum kjarasamningi í mars.  Þessi atriði varða heildarsamninga allra opinberra starfsmanna, eins og áður hefur komið fram.

Breytingar á orlofsmálum

Skil milli vinnu og einkalífs

Jöfnun launa á milli markaða og launaþróunartrygging

Spurt og svarað um kjarasamningana

Kynningarglærur fyrir alla efnisflokka

Vegna þess ástands sem uppi er í samfélaginu – og óvissu um fjöldasamkomur – er mikilvægt að félagsmenn kynni sér vel þær upplýsingar sem hér er að finna og það kynningarefni sem við munum á næstu dögum senda ykkur í tölvupósti.

Kosið verður rafrænt um þann kjarasamning sem við höfum skrifað undir, að kynningu lokinni.

Til baka