Formaður LL um umræðuna: Nær ekki nokkurri átt
23 okt. 2020
„Ég hef ekki séð það sem þar fer fram en heyrt af ýmsu sem þar hefur verið skrifar og það nær ekki nokkurri átt að fólk skuli leifa sér að skrifa sumt af því sem það setur þarna inn,“ sagði Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.
Snorri fór þar yfir þá umræðu sem átt hefur sér stað vegna myndar af lögreglukonu sem bar fána á undirvesti sínu. Því hefur verið haldið fram að fánarnir tengist hatursorðræðu.
Í viðtalinu greindi Snorri frá því að lögreglumenn væru afar ósáttir við umræðuna og að lögreglumenn hafi verið kallaðir öllum illum nöfnum. Sérstaklega hefði umræðan verið ljót á Pírataspjallinu – sem er hópur á Facebook. Ótrúlegt væri hvað fólk léti út úr sér í skjóli nafnleyndar á samfélagsmiðlum; oft illa ígrunduð og lítið hugsuð ummæli. „Það liggur fyrir varðandi þetta tiltekna mál að lögreglukonan sem á þarna hlut að máli hefur nú þegar beðist afsökunar á þessu og gerði sér enga grein fyrir því hvað þessi neðsti fáni, sem mesti virðist hafa farið fyrir brjóstið á fólki, mögulega táknar,“ sagði hann.
Umræddur fáni væri notaður sem hluti af felulituðum búningi norskra hermanna. „Það er hins vegar þannig líka með mörg svona merki að þau fá á sig slyðruorð því miður vegna þess að hópar einstaklinga taka þetta upp og nota þetta í svona negatívum tilgangi. Það var ekki það sem þarna var á bak við, alls ekki.“
Snorri sagðist í viðtalinu hafa fundað með lögmönnum sambandsins til að kanna hvort flötur væri á því að sækja fólk til saka vegna sumra þeirra ummæla sem fallið hafi. „Það verður að koma í ljós eftir því hvernig málið þróast. Það er augljóslega uppi á borði, það er alveg klárt mál,“ sagði Snorri í viðtalinu.