Fréttir

Faraldurinn hefur aukið álagið

8 nóv. 2020

Álag á lögreglumenn hefur aukist mikið í kórónaveirufaraldrinum. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Dæmi eru um að lögreglumenn hafi þurft allt að fjórum sinnum í sóttkví eftir að hafa fengist við fólk sem ekki virðir sóttvarnarreglur.

Fram kom í fréttatímanum að 115 lögrelgumenn hafi farið í sóttkví og 23 í einangrun frá því í mars. Haft var eftir Ásgeiri Þór Ásgeirssyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að það væri erfitt fyrir lögreglumenn að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort fólk sé í sóttkví eða að brjóta einangrun. Þetta væri bæði íþyngjandi og flókið.

Fram kom að lögreglan hafi gripið til mikilla ráðstafana vegna faraldursins og lögreglumenn væru í sérstökum hlífðarbúnaði.

„Það er til dæmis vont að eiga neikvæð samskipti í þessum hlífðarbúnaði vegna þess að hann er ekki byggður fyrir átök og erfiðar handtökur og þetta eru allt hlutir sem við höfum, sem lögreglumenn hafa þurft að leysa,“ sagði Ásgeir Þór.

Til baka