Fréttir

Lögreglumanni dæmdar miskabætur vegna umfjöllunar DV

18 des. 2020

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi ritstjóri DV, var í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag dæmd til að greiða lögreglumanni hálfa milljón króna í miskabætur vegna fréttar um að hann hefði slasað ungan mann við embættisstörf í febrúar síðastliðnum. Vísir greinir frá þessu.

Lögreglumaðurinn var nafngreindur í fréttinni, sem birtist þann 16. febrúar á þessu ári. Fyrirsögn fréttarinnar var „Lögreglumaður sakaður um hrottalega líkamsárás í miðbænum í nótt – Er leikmaður FH“. Fréttin var ekki merkt blaðamanni en Lilja var ritstjóri miðilsins, sem í dag er í eigu Torgs ehf., sem á og rekur Fréttablaðið. Hún starfar ekki lengur á DV.

Með fréttinni birtist myndband af atvikinu og í fréttinni var sú atvikalýsing að þar sæist lögreglumaðurinn öskra á piltinn og slengja honum í jörðina með þeim afleiðingum að í honum hefðu brotnað tennur og sennilega kjálkabein.  Í dómnum kemur fram, að sögn Vísis, að ekki hafi verið haft samband við drenginn sem sakaði lögreglumanninn um árásina né lögreglumanninn sjálfan. Síðar var því þó bætt við fréttina að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafnaði ásökun mannsins og að ekki fengist annað séð á myndbandinu en að áverkar mannsins hafi verið til komnir áður en lögreglan var kölluð til. Síðar fjarlægði DV nafn lögreglumannsins úr fréttinni og mynd af honum. Fyrirsögninni var auk þess breytt lítillega.

Lögreglumaðurinn, sem á flekklausan feril í starfi, krafði DV um 1,5 milljónir króna í miskabætur síðastliðið vor en erindi hans var ekki svarað. Því fór hann með málið fyrir dóm. Hann byggði mál sitt meðal annars á því að hann myndi missa vinnuna hlyti hann dóm fyrir hegningalagabrot. Ásakanirnar væru því enn alvarlegri en ella. Með umfjölluninni hefði verið brotið gegn rétti hans til æruverndar og friðhelgi einkalífsins. Hann hefði í starfi sínu heimild til valdbeitingar og hefði beitt vægustu mögulegu úrræðum til að ná stjórn á vettvangi. Hann hefði aldrei lagt hendur á drenginn heldur bara skipað honum að leggjast niður. Því hefði hann hlýtt.

Fréttin hefði aftur á móti verið skrifuð þannig að skilja mætti að lögreglumaðurinn væri hættulegur ofbeldismaður sem framið hefði hrottalega líkamsárás í starfi. Fréttin hafi til að mynda verið skreytt höfuðkúpu og ljósmynd af lögreglumanninum þar sem hann hélt á brúsa af piparúða.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi að ummælin „Lögreglumaður sakaður um hrottalega árás í miðbænum í nótt – Er leikmaður FH“ skyldu ómerkt. Lilja Katrín var, auk miskabótanna, dæmd til að greiða 1,7 milljónir króna í málskostnað. DV ber að gera grein fyrir forsendum dómsins og dómsorðum innan sjö daga, eða sæti ellegar dagsektum.

Til baka