Fréttir

Mikilvægar upplýsingar vegna stofnanasamnings

31 des. 2020

Lögreglumönnum hefur borist orðsending frá formönnum samninganefnda lögreglumanna og lögreglustjóra vegna stöðu á gerð nýs stofnanasamnings. Í henni kemur fram að ekki hafi tekist að undirrita stofnanasamninginn fyrir áramót, eins og stefnt hafði verið að. Það kemur þó ekki í veg fyrir að umsamdar launahækkanir skili sér til lögreglumanna.

Samningurinn, sem unnið er að, kveður á um grundvallar formbreytingu á launa- og starfsumhverfi lögreglumanna. Í henni felst gegnsærri launaþróun auk þess sem grunnur er lagður að heildstæðu starfsferilskerfi þar sem tekið er mið af miðlægri starfsþróun, sí- og endurmenntun lögreglunnar. Þetta mun hafa víðtæk jákvæð áhrif og stuðla að auknum tækifærum lögreglumanna, að því er fram kemur í orðsendingu Stefáns og Úlfars.

Mikil vinna er að baki og nokkuð heildstæð samningsdrög liggja fyrir. Boðað er að vinnunni muni ljúka fyrir miðjan janúar og að launahækkanir komi til framkvæmda mánaðamótin janúar/febrúar, eins og staðið hefur til.

Verið er að yfirfara þær grundvallarbreytingar sem samningurinn boðar ásamt því að álagsprófa ýmsa þætti samningsins. Það skýrir þessa stuttu töf. Fram kemur þeim sem eru á fyrirframgreiddum launum verði tryggð viðhlítandi afturvirkni fyrir janúarmánuð, þegar að umsömdum kjarabótum kemur.

Til baka