Fréttir

Ráðherra breytir reglum um inntökuskilyrði í lögreglunám

6 jan. 2021

Notkun lyfseðilsskyldra lyfja verður ekki lengur útilokandi þáttur við inntöku í starfsnám í lögreglufræðum hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar. Frá þessu er greint á Vísi í dag og vísað í tölvupóst frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til Ólafíu Kristínar Norðfjörð lögreglumanns.

Rakið er að Ólafíu hafi í tvígang verið neitað um námið sökum þess að hún tekur kvíða- og þunglyndislyf, en hún er starfandi lögreglumaður í Reykjanesbæ.

Á Vísi kemur fram að inntökuferlinu í námið verði breytt þannig að umsækjendur muni þreyta þrekpróf og fara í gegn um annan undirbúning áður en þeir gangast undir læknisskoðun og sálfræðimat, ef þess er þörf. Fram kemur að hingað til hafi ákvörðun trúnaðarlæknis um vanhæfi, meðal annars sökum lyfjanotkunar, komið í veg fyrir að umsækjendur fái að spreyta sig í öðrum þáttum inntökuferilsins.

Fram kemur að Ólafía hafi fengið umræddan tölvupóst frá ráðherra 30. desember. Hún segir að hún hafi litlum skilningi mætt fyrr en hún fékk fund með ráðherra. „Mig langaði á tímabili að gefast upp og hugsaði að ég fengi aldrei að mennta mig sem lögreglumaður en mér fannst ég bara ekki getað látið aðra ráða því,“ er haft eftir henni.

Nánar má lesa um málið hér.

Til baka