Fréttir

Smitaðist í starfi og missti af fæðingu dóttur sinnar

19 mar. 2021

Símon Geir Geirsson lögreglumaður og Íris Edda Heimisdóttir rannsóknarlögreglumaður eru tvö þeirra sem smituðust af COVID-19 við skyldustörf fyrir lögregluna á Suðurlandi í júní. Þau lýsa því bæði hvernig þau upplifðu veikindin og fjarveruna frá fjölskyldum sínum, á viðkvæmum tímapunkti í lífi þeirra. „Þetta var mikið áfall,“ segir Símon um það þegar hann greindist en þá var konan hans gengin 38 vikur.

„Ég finn ekki fyrir reiði út í starfið eða þetta verkefni, núna þegar frá líður. En þetta kennir manni að fara varlega,“ segir Símon Geir Geirsson, lögreglumaður á Suðurlandi. Hann smitaðist af COVID-19 í sumar, þegar hann hafði afskipti af þremur Rúmenum sem hnuplað höfðu úr verslun á Selfossi. 

Verslunareigandinn hafði náð myndum af fólkinu og bílnum þegar þau óku á brott eftir brot sín umræddan dag. Eftir að hafa verið í samskiptum við fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hendur í hári fólksins skammt utan Reykjavíkur. Símon fór því ásamt öðrum lögreglumönnum yfir Hellisheiði og sótti fólkið.

Þremur dögum fyrir opnun landamæra

Þetta var 12. júní síðastliðinn en fyrirhugað var að opna landamærin 15. júní. „Við töldum að landamærin væru lokuð og að fólk væri ekki að ferðast á milli landa, nema með einhverjum undantekningum,“ segir Símon um aðstæðurnar sem uppi voru á þessum tíma. Fólkið hafi verið á bíl sem skráður var á einstakling sem búsettur var í Reykjavík og drógu þau því þá ályktun að um væri að ræða fólk sem byggi hér á landi. Lögreglumennirnir hafi verið með hanska en ekki annan hlífðarbúnað.

Símon segir að fólkið hafi verið fært í járn – með tilheyrandi nálægð – og því hafi svo verið ekið yfir heiðina til baka. Hann settist sjálfur í aftursæti lögreglubílsins, við hlið eins mannsins. „Á leiðinni var ekkert sem benti til smits, það var enginn lasinn að sjá. Einn þeirra sagði mér að hann byggi í Reykjavík og þeir sögðu ekkert um að þau væru nýkomin frá útlöndum.“

Fjórir í herberginu í einu

Á lögreglustöðunni á Selfossi var Íris Edda Heimisdóttir rannsóknarlögreglumaður ásamt kollegum sínum þegar Símon og félagar komu með Rúmenana í hús. Klukkan var að verða þrjú en vaktinni hennar átti að ljúka klukkan fjögur. Áður en hún fór heim tók hún skýrslu af fólkinu, hverju í sínu lagi, ásamt öðrum rannsóknarlögreglumanni, sem einnig smitaðist umræddan dag. Það tók drjúgan tíma. Hún segir að rýmið þar sem skýrslur eru teknar af fólki á lögreglustöðinni sé ekki stórt. 

„Þetta voru þrjár skýrslutökur,“ segir hún um framvinduna. Hver og ein skýrslutaka hafi farið fram með tveimur lögreglumönnum og túlki. Fjórir hafi því verið inni í herberginu á hverjum tíma.

Íris segir að sögum fólksins hafi ekki alveg borið saman um veru þeirra hér á landi, auk þess sem tungumálaörðugleikar hafi torveldað samskiptin. Smám saman hafi hins vegar komið í ljós að fólkið hafði allt komið til landsins fjórum dögum áður. „Fram að því vaknaði aldrei sá grunur að fólkið væri nýkomið til landsins. Þau voru á bíl sem skráður var á einstakling sem er búsettur hér á landi, með íslenska kennitölu. Landið átti að vera lokað með undantekningum. Verklag hjá okkur var í samræmi við það,“ útskýrir Íris. Um leið og í ljós kom að fólkið hefði komið til landsins örfáum dögum áður var gripið til aukinna sóttvarna. En þá hafi það verið of seint. 

Þegar skýrslutökum lauk var ákveðið, í samráði við sóttvarnalækni, að lögreglumennirnir fengju að fara heim, enda byrja þeir sem smitast ekki að smita aðra fyrr en að tilteknum tíma liðnum. Síðar um kvöldið var sýni tekið af fólkinu sem var í haldi. 

Strax morguninn eftir, á laugardeginum, var svo hringt í lögreglumennina því smit hafði greinst hjá Rúmenunum. Þá fóru Íris, Símon og aðrir lögreglumenn sem að máli höfðu komið í sóttkví. Alls var um að ræða ellefu lögreglumenn á Suðurlandi og fáeina hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Var á leið í útskrift þegar símtalið kom

Þessa helgi var Símon á leið í útskrift sína hjá Menntasetri lögreglunnar. „Það hafði verið ákveðið að lítil útskrift yrði haldin fyrir þá sem voru að klára skólann. Ég var á leiðinni í útskriftina þegar ég fékk símtal um að ég ætti að fara í sóttkví,“ útskýrir hann. Fyrri skimun hjá lögreglumönnunum sem voru í sóttkví fór fram mánudaginn 15. júní, að sögn Símonar. Aðeins einn lögreglumaður greindist jákvæður þá; Íris Edda.

 „Það var vægast sagt ömurleg tilfinning og mikið sjokk,“ segir Íris um það þegar hún fékk jákvæða niðurstöðu á mánudeginum, eftir að hafa verið í sóttkví frá því umræddan laugardag. Hún segist hafa verið búin að vera kvefuð og með stíflaðar ennisholur áður en þetta mál kom upp og taldi að einkennin sem hún hafði tengdust þeim veikindum. Áfallið hafi því verið mikið. Í kjölfarið fór hún strax í einangrun í sumarhús sem embættið hafði til afnota.

Ein í bústað

Íris var ein í sumarhúsinu í fjóra daga og segir það aðspurð hafa verið skrýtinn tíma. „Ég var ein uppi í sveit, stundum í kolniðamyrkri,“ rifjar hún upp. „Það flaug ýmislegt í gegnum hugann og manni stóð ekkert á sama.“ Hún segist þó vera jákvæð að eðlisfari og tók ákvörðun um að lesa lítið af því sem fjölmiðlar voru að skrifa á þessum tíma – reyna þess í stað að einbeita sér að eigin bata. „Ég hef fengið verri flensu segir hún um einkennin. „Þetta var slím og hósti og mikil hálsbólga. Ég var raddlaus í tvo daga. Ég hóstaði en var ekki slæm í lungunum – var bara þreytt og slöpp.“ 

Íris segir það hafa verið erfitt að vera ein og vera kippt út úr daglegri rútínu. Hún hafi mikla hreyfiþörf og því hafi það verið mikil viðbrigði að loka sig inni. Íris var auk þess hrædd um að hafa smitað fjölskyldu sína. Þau unnusti hennar höfðu þó ákveðið að halda fjarlægð á heimilinu á föstudagskvöldinu og voru meðvituð um þá hættu sem var fyrir hendi. Ekki var talin þörf á því að fjölskylda hennar færi í sóttkví.

Erfiður aðskilnaður

Íris á unnusta og þrjú börn. Yngsta barnið, stúlka, var þarna aðeins fimmtán mánaða þegar Íris greindist með smit. „Það var rosalega erfitt því hún er mikil mömmustelpa. Það var það erfiðasta –að fara frá henni svona ungri,“ útskýrir Íris. Hún segir að áður en hún þurfti að fara í sóttkví og svo einangrun hafi litla stúlkan verið farin að segja orðið „mamma“ en þegar hún sneri til baka – og sótti hana til dagmömmu – hafi dóttir hennar ekki viljað koma með henni heim heldur viljað vera áfram hjá dagmömmunni. Íris viðurkennir að það hafi verið henni mjög erfitt að upplifa. „Hún er enn ekki farin að segja mamma aftur,“ bætir hún við.

Fimmtudaginn 18. júní greindust tveir lögreglumenn til viðbótar með COVID-19, eftir samskiptin við Rúmenana. Símon var annar þeirra. Íris fékk þá hugmynd, eftir að hafa verið ein uppi í sveit í fjóra daga, að þremenningarnir yrðu saman í einangrun í bústaðnum. Að höfðu samráði við yfirmenn og sóttvarnayfirvöld var fallist á það – enda öll þrjú með smit af sama stofni. Íris segir að það hafi verið afar góð ákvörðun. Þau hafi veitt hvort öðru mikinn stuðning í veikindunum.

Greining á ögurstundu

Símon greindist 18. júní, eins og áður segir. Á þeim tíma var eiginkona hans gengin 38 vikur með þeirra fyrsta barn saman. Þau höfðu bundið vonir við að hann yrði laus úr sóttkví áður en barnið kæmi í heiminn en jákvæð niðurstaða sýnisins gerði þær vonir að engu. „Þetta var mikið sjokk og áfall. Heimurinn eiginlega hrundi þegar þetta kom upp,“ viðurkennir Símon. Tilhugsunin um að missa af fæðingu barnsins, fyrstu andartökum þess og að geta ekki verið konu sinni innan handar á þessum viðkvæmu dögum hafi verið ömurleg. 

Hann segir að þetta sýni hvað því geti fylgt að vera maki lögreglumanns. Verkefnin geti bæði verið hættuleg og erfið og þeir sem eru í framlínunni geti aldrei vitað hvað bíður þeirra. Vinnan fari oft fram á næturnar og um helgar auk þess sem trúnaðarskylda kemur í veg fyrir að hægt sé að ræða það sem upp kemur í vinnunni við makann. „Við upplifðum allar tilfinningarnar. Maður verður reiður, pirraður, vonsvikinn og fúll,“ segir hann um daginn sem þau fengu fréttirnar um að hann væri smitaður af COVID-19.

Símon fór í bústaðinn, eins og áður kemur fram, og segir að það hafi verið erfiður tími. Stuðningurinn sem þau hafi veitt hvert öðru hafi hins vegar verið ómetanlegur. „Við gátum rætt hlutina og þau einkenni sem komu upp. Maður þurfti ekki að vera einn með sínum hugsunum.“ Hann segir að fyrstu einkennin sem hann fann hafi verið miklir höfuðverkir. Hann hafi svo fundið fyrir tímabundnu lyktar- og bragðleysi auk hefðbundinna flensueinkenna. „Ég slapp rosalega vel.“ 

Hann viðurkennir að hann hafi verið smeykur fyrst eftir að hafa verið greindur. „Mér fannst þetta alveg hrikalegt. Það vill hins vegar svo til að bróðir minn er lögreglumaður í Vestmannaeyjum og hann fór að segja mér sögur af smituðum Eyjamönnum sem við þekkjum báðir þaðan. Þá róaðist hugurinn. Ég var svo með einkenni í sjö daga,“ útskýrir hann en í sjö daga til viðbótar hafi hann þurft að vera í einangrun – reglum samkvæmt.

Fæðingin í beinni á Messenger

Svo fór að konan hans fór af stað á meðan hann var í bústaðnum. „Ég fékk að fylgjast með fæðingunni í gegnum vídeósamtal á Messenger,“ segir hann. Það hafi verið erfitt því hann hafi ekki heyrt allt það sem fram fór. Á einum tímapunkti hélt hann að ráðast ætti í keisaraskurð en það hafi verið misskilningur hjá honum. „Konan mín stóð sig eins og hetja og þetta gekk rosalega vel. Það var skrýtið að fá ekki að klippa á naflastrenginn og líka að geta ekki haldið í höndina á konunni minni og hughreyst hana í fæðingunni.“ 

Hann fékk fyrst að hitta nýfædda dóttur sína þegar hún var fimm daga gömul. Hann viðurkennir að það hafi verið tilfinningaþrungin stund. Ég hafði ekki fengið að koma nálægt konunni minni í tuttugu daga.

Æðruleysi mikilvægt í starfinu

Símon segir að jákvæðni sé afar mikilvægur þáttur í fari lögreglumanns. Verkefnin séu þess eðlis að jákvæðni og æðruleysi sé mikilvægt veganesti. Útköllin séu oft á tíðum átakanleg og einstaklingarnir sem hafa þarf afskipti af erfiðir. „Það þarf æðruleysi til að geta tæklað þessa hluti og þetta útkall kennir manni að maður þarf alltaf að fara varlega.“ Hann segist vera tiltölulega nýr í lögreglustarfinu – hafi byrjað árið 2018. Hann hafi „álpast“ í lögregluna og fundið strax eftir tvo daga í starfi að þetta væri rétta starfið fyrir hann. „Pabbi minn var lögreglumaður og hann var ekkert að hvetja mig til að fara í lögguna. En þetta er ekki starf sem maður velur. Lögreglustarfið velur mann.“

Hann segist ekki glíma við nein eftirköst eftir veikindin. Aðspurður segir hans hins vegar að það sé afar mikill léttir að vera búinn að veikjast. „Það leiðinlega við þetta er kannski það að við sem höfum smitast erum alltaf send á vettvang þegar minnsti grunur leikur á um að einhver sé smitaður en það er mikill léttir að vera búinn að fá þetta. Ég er bara laus við þetta.“

Íris segist hins vegar ekki vera orðin fullgóð eftir veikindin. „Ég er rosalega treg að hengja einhver einkenni við þetta en ég finn að ég er ekki alveg 100 prósent. Daglegt þrek og orka er minna. Mér finnst ég vera síþreytt og fæ mikinn höfuðverk upp úr engu – sem gerðist ekki áður. En hvort það er vinnuálagið eða einhver önnur skýring skal ég ekki segja til um.“ 

Ónákvæmar upplýsingar

Þegar Íris horfir til baka viðurkennir hún að skýrari upplýsingar hefðu mátt liggja fyrir. Þau hafi haft upplýsingar um að landamærin væru lokuð og ályktuðu, út frá þeim upplýsingum sem þau höfðu, að Rúmenarnir væru búsettir hér á landi. Sú hafi ekki verið raunin og á því hafi þau brennt sig. Málið hafi hins vegar kennt þeim að grípa til ýtrustu varúðarráðstafana, ef minnsti grunur leikur á að fólk sé smitað. „Maður sér núna að við hefðum átt að vera með grímu og hanska en það var tekin ákvörðun um að ekki væri tilefni til þess þarna.“

Hún segir að framganga yfirmanna hjá lögreglunni á Suðurlandi hafi verið til fyrirmyndar frá því málið kom upp. Stuðningur félaga í gegnum veikindin hafi verið mikill og flest hafi verið gert til að koma til móts við þau. „Ég fékk mín venjulegu laun og vil hrósa þeim sem stjórna lögreglunni hér á Suðurlandi,“ segir hún að lokum.

Birtist fyrst í Lögreglumanninum, nóvember 2020.

Til baka