Fréttir

Hólmsteinn ráðinn framkvæmdastjóri LL

28 maí. 2021

Hólmsteinn Gauti Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landssambands Lögreglumanna. Hann tekur við starfinu 1. september næstkomandi. Samþykkt var á stjórnarfundi LL, þann 25.maí síðastliðinn, að ganga til samninga við Hólmsteinn.

Hólmsteinn Gauti er menntaður lögfræðingur sem hefur aflað sér héraðsdómslögmannsréttinda. Hann er með viðbótarnám frá lögregluháskólanum í Ósló í rannsóknum alvarlegra fjármuna- og efnahagsbrota.

Hólmsteinn hefur undanfarin ár gegnt starfi lögfræðings yfirstjórnar og aðstoðarsaksóknara við embætti héraðssaksóknara. Áður var hann saksóknari hjá héraðssaksóknara, lögfræðingur yfirstjórna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögfræðingur á dómsmála-og löggæsluskrifstofu dóms-og kirkjumálaráðuneytis.

Hann var fulltrúi hjá lögreglustjóranum í Kópavogi og settur sýslumaður og lögreglustjóri á Höfn á árinu 2005. Hólmsteinn hefur auk þessa setið í valnefnd fyrir Lögregluskóla ríkisins og situr í Fræðslu-  og starfsþróunarsjóði LL, fyrir hönd dómsmálaráðuneytis.

Hólmsteinn hefur því mikla þekkingu á málefnum lögreglunnar og hefur meðal annarra verkefna, sem lögfræðingur yfirstjórnar, komið að vinnu við kjör og réttindi lögreglumanna. Stjórn Landssambands Lögreglumanna hefur miklar væntingar til Hólmsteins í því starfi að vinna að hagsmunum lögreglumanna og hlakkar til samstarfs við hann.

Á meðfylgjandi eru Fjölnir Sæmundsson, nýr formaður LL, (t.v.) og Hólmsteinn Gauti (t.h.), nýráðinn framkvæmdastjóri.

Til baka