Fréttir

Orðsending frá stjórn vegna stofnanasamnings

1 sep. 2021

Kæru félagar.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt hefur mikil vinna verið í gangi undanfarna mánuði í tengslum við
nýgerða stofnanasamninga Landssambands Lögreglumanna við ríkið. Við undirritun samningana í
ársbyrjun voru tekin fyrstu skrefin í nútímavæðingu launauppbyggingu lögreglumanna.
Ljóst er að engum er greiði gerður að flýta sér um of svo að afraksturinn standi undir sér og þá sér í lagi
væntingar lögreglumanna.

Samkvæmt stofnanasamningnum átti að framkvæma endurskoðun á samningnum fyrir 1. júlí 2021. Vegna ófyrirsjáanlegra atvika, m.a. vegna áhrifa heimsfaraldurs og annara verkefna fulltrúa Landssambandsins og viðsemjenda, var ljóst að sú dagsetning myndi ekki standa og var því lagt upp með að klára þá vinnu 1. september 2021.

Nokkur atriði sem komu fram við endurskoðunina hafa ekki verið leyst og því er raunin sú að því miður
er þessari vinnu ekki lokið en vonir standa til að endurskoðuninni ljúki fljótlega. Samhliða því hefur verið gífurleg vinna sett í að fullnusta atriði er koma fram í bókunum 2 og 3 stofnanasamningsins. Þ.e. að greina störf lögreglumanna með það markmið að útfæra samræmdar starfslýsingar lögreglumanna sem kæmi inn á persónubundna þætti m.a. vegna viðbótarmenntunar lögreglumanna sem skal umbuna sérstaklega fyrir.

Samkvæmt bókun 2 og 3 var lagt upp með að þessari vinnu yrði lokið 1. Júlí 2021 og að heildarendurskoðun á menntunarhlutanum yrði lokið 1. júní 2022. Eftir að sú vinna hófst kom í ljós að umfang þess verkefnis var gríðarstórt m.a. sökum þess að embættin voru með mismunandi launasetningar, misræmi á starfsábyrgðum milli starfaflokka og mismunandi starfslýsingar. Þeirri vinnu er ekki lokið en unnið er hörðum höndum í að klára þá vinnu sem fyrst.

Þá vill Landssamband Lögreglumanna árétta fyrir lögreglumönnum að í bókun 2 sem fylgir samningnum
kemur fram að gert er ráð fyrir því að þeim fjármunum sem standa eftir verði „greitt með afturvirkum
hætti í eingreiðslu líkt og útfærslan hefði tekið gildi 1. janúar 2021“.

Landssamband Lögreglumanna og stofnasamningsnefnd LL biðlar til lögreglumanna að halda ró sinni.
Unnið er í þessu fyrir hönd allra lögreglumanna og við hyggjumst ekki sofna á verðinum um hagsmuni
stéttarinnar.

Kveðja,
Stjórn Landssambands Lögreglumanna.

Til baka