Fréttir

BSRB 80 ára í dag

14 feb. 2022

BSRB fagnar 80 ára afmæli í dag. Formaður og varaformenn bandalagsins sendu frá sér kveðju í dag, af þessu tilefni. Hana má lesa hér fyrir neðan.

Kæru félagar,
Til hamingju með daginn! Í dag, 14. febrúar, er tilefni til að fagna því samstarfsvettvangur okkar
allra fyrir betri kjörum og betra samfélagi á stórafmæli. Það eru 80 ár síðan starfsfólk hjá hinu
opinbera bast samtökum og stofnuðu BSRB. Þau létu reyna á samstöðuna og hófu þessa
vegferð sem hefur skilað okkur svo miklu.

Félagsfólk aðildarfélaga bandalagsins kemur úr ýmsum áttum. Þau starfa við umönnun, í
grunnskólum, leikskólum, í löggæslu, við slökkvistörf og sjúkraflutninga, flugsamgöngur,
heilbrigðisþjónustu, þjónustu við fatlað fólk, póstþjónustu, stjórnsýslu og ótal margt fleira.
Starfsfólk almannaþjónustunnar heldur samfélaginu gangandi, eins og heimsfaraldurinn sem
nú er vonandi á lokametrunum hefur sýnt okkur. Það er einmitt samstaða þessa um margt
ólíku stétta sem hefur skilað okkur stærstu sigrunum í gegnum tíðina. Það er auðvelt að benda
á ólíka hagsmuni í einstökum málum en það er svo ótrúlega margt sem við eigum sameiginlegt,
svo gríðarmiklir hagsmunir allra að vinna saman.

Við höfum þurft að berjast fyrir öllum þeim árangri sem hefur náðst í gegnum þessa 80 ára
sögu BSRB og sú barátta hefur stundum verið harkaleg. En árangurinn er líka eftir því. Við
getum nefnt að bandalagið var fyrst til að tryggja lífeyrisréttindi fyrir allt félagsfólk, orlofsrétt og
rétt til launa í fæðingarorlofi. Við gætum einnig nefnt að bandalagið náði fram einu af fyrstu
jafnlaunaákvæðunum þar sem staðfest var að kjör kvenna og karla eigi að vera þau sömu.
Bandalagið hefur tvisvar náð góðum árangri í því að stytta vinnutíma, fyrst úr 44 stundum í 40
árið 1970 og svo aftur árið 2020 þegar þorri félagsmanna stytti vinnutímann í 36 stundir eða
minna. Mörg þessara réttinda sem okkur finnst sjálfsögð í dag og viljum gjarnan betrumbæta
enn frekar, voru einu sinni bara hugmyndir félagsfólks og oft voru aðstæður þannig að það
þótti nær óhugsandi að þær yrðu að veruleika.

Þessi árangur hefði aldrei náðst ef aðildarfélögin hefðu samið hvert í sínu horni. Það er
samtakamátturinn og krafturinn sem býr í félagsmönnunum sem hefur komið okkur öllum á
þennan stað. Nú styttist í að kjarasamningar verði lausir enn á ný og undirbúningurinn að
hefjast hjá aðildarfélögunum. Við vitum ekki hverjar áherslurnar verða í kjaraviðræðunum. Það
eru okkar frábæra félagsfólk sem varðar þá leið. En hverjar sem kröfurnar verða er ljóst að til
þess að ná árangri verðum við að vera tilbúin í baráttuna saman. Það er gríðarlegur styrkur að
vita til þess að rúmlega 23 þúsund félagar í aðildarfélögum BSRB standa saman og séu tilbúnir
í baráttuna fyrir bættum kjörum og betri starfsaðstæðum.
Kæru félagar. Takk kærlega fyrir samvinnuna, stuðninginn og samstöðuna síðustu 80 ár.

Baráttukveðjur!

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB
Þórarinn Eyfjörð 1. varaformaður BSRB
Arna Jakobína Björnsdóttir 2. varaformaður BSRB

Til baka