Fréttir

Opið fyrir umsóknir um orlofshús

22 mar. 2022

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um sumarúthlutun orlofshúsa LL, í dag, 22. mars. Hægt verður að sækja um til 5. apríl. Að þeim tíma loknum er úthlutað eftir punktastöðu. Tímabilið sem hægt verður að sækja um er frá 3. júní til 26. ágúst.

Í boði verða tvö hús í  Munaðarnesi, bæði endurbyggð, orlofshúsið á Geysi, við Flúðir og síðan íbúð við Hamratún á Akureyri.

Athygli er vakin á að til stendur að festa kaup á nýju sumarhúsi í Hlíðarfjalli á Akureyri. Bygging þess á að hefjast með vorinu. Það verður væntanlega reiðubúið til notkunar á næsta ári.

Íbúðin í Hátúni í Reykjavík er í dagleigu og þar gildir „fyrstur kemur fyrstur fær“. Orlofshúsið á Eiðum verður líka í dagleigu og verður opnað fyrir bókanir þar 1. maí. Þar er ekki gerð krafa um að leigja í heila viku heldur má velja þann dagafjölda sem hentar.

Athugið að venju samkvæmt stendur lögreglumönnum á eftirlaunum til boða að sækja um dvöl í orlofshúsum félagsins í fjórar vikur í upphafi orlofstímans. Þeir greiðar hálft gjald.

Verð fyrir vikuleigu í orlofshúsunum 2022 er 32.000 krónur, að Eiðum og íbúðinni í Hátúni í Reykjavík undanskildum. Í Hátúni kosta fyrstu tvær næturnar 7.500 krónur en næstu fimm þar á eftir 3.000 krónur.

Nánari upplýsingar um orlofshúsin, niðurgreiddar ferðaávísanir og gjafabréf má finna á orlofsvefnum; orlof.is/ll.

Umgengni

Við hvetjum félagsmenn til að ganga vel um húsin og skilja við þau eins og þeir myndu sjálfir vilja koma að. Enginn umsjónarmaður tekur út ástand húsanna eftir dvölina. Ef eitthvað er athugavert við umgengni eða þrif húsanna við komu skal láta skrifstofu félagsins vita. Einnig er hægt að láta vita á vefnum undir „Mínar síður“ og „Umsagnir um leigueignir“. Athugið að slæm umgengni getur haft áhrif á úthlutanir síðar.

Tæki og tól

Í öllum húsunum eru eldhúsáhöld, sængur og koddar. Einnig eru barnarúm og barnastólar í öllum húsunum. Nánari upplýsingar um fylgihluti hvers húss og skiptitíma er að finna í leigusamningi sem leigutaki fær við greiðslu.

Nauðsynlegt að taka með:

– Borðklútar

– Diskaþurrkur

– Uppþvottalögur (uppþvottavélar eru í húsunum við Geysi og að Felli)

– Salernispappír

Við brottför

– Þrífa húsið, grillið og heita pottinn ef þess þarf

– Bæta við vatni í heita pottinn ef þess þarf (Geysir)

– Athugið hvort allir gluggar séu lokaðir og kræktir

– Hurðir vel lokaðar og læstar

– Lykillinn kominn í lyklaskáp

– Ekki taka hita af húsinu við brottför

Til baka