Íþróttir lögreglumanna í fréttum
7 jún. 2022
Stöð 2 fjallaði á öðrum í hvítasunnu um íþróttir lögreglumanna. Þar var rætt við Óskar Bjartmarz, formann íþróttasambands lögreglumanna. Farið var yfir helstu afrek lögreglumanna á sviði íþrótta en einnig hvað nýlega hefur verið á döfinni.
„Við vorum síðustu helgi að klára Norðurlandamót í skotfimi lögreglumanna, þar sem voru tæplega 50 kollegar. Við náðum þar að vinna þjónustuvopnið, sem eru vopn sem lögreglumenn nota á hverjum stað,“ sagði Óskar við fréttamann. „Svo vorum við með handboltalið karla og kvenna í Stokkhólmi í síðustu viku líka. Við reyndar riðum þar ekki feitum hesti en það er bara gaman að geta tekið þátt. Síðan förum við með körfuboltalið á úrslit Evrópumótinu í Frakklandi,“ sagði hann í viðtalinu.
Hann sagði að íþróttastarfið hefði margvíslega þýðingu fyrir lögreglumenn. Þar kynntust menn utan vinnustaðarins og sköpuðu dýrmæt tengsl sína á milli. Þau kæmi sér oft vel síðar meir.