Fréttir

Lagafrumvarp um lögreglu afgreitt úr ríkisstjórn

22 nóv. 2022

Ríkisstjórn Íslands afgreiddi í morgun frumvarp um breytingu á lögreglulögum. Í frumvarpinu felast meðal annars heimildir til forvirkra rannsókna og vopnaburðar lögreglu. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir raunhæft að frumvarpið verði að lögum skömmu eftir áramót.

Fjallað er um málið á Vísi. Þar er haft eftir Jóni að verið sé að opna á heimildir lögreglu til að stuðla að auknum afbrotavörnum með eftirliti á þeim þáttum sem snúið geti að skipulagðri brotastarfsemi eða gagnvart hryðjuverkaógn. „Það er það sem að þetta frumvarp gengur út á og við erum að reyna að færa okkur þar svona nær því sem að gengur og gerist í nágrannalöndum okkar í starfsumhverfi lögreglunnar,“ segir hann.

Frumvarpið kemur nú til kasta þingflokka en Jón á von á skjótri afgreiðslu. Hann boðar að samhliða verði sett á fót embætti innra eftirlits hjá lögreglu.

Á Vísi í dag birtist einnig pistill eftir Fjölni Sæmundsson, formann LL. Þar skrifar hann um mönnunarvanda lögreglu, öryggismál lögreglumanna og rekur meðal annars hvernig notkun rafvarnarvopna hefur reynst í nágrannalöndunum.

„Í landi eins og okkar, þar sem langt er á milli staða og oft bið eftir aðstoð annarra lögreglumanna, getur rafvarnarbúnaður reynst mikilvægt öryggistæki. Tölur frá breska heimavarnarráðuneytinu sýna að eftir að lögregla þar í landi fékk í hendur slíkan búnað hefur slysum bæði hjá lögreglumönnum, og á meðal þeirra sem lögregla þarf að hafa afskipti af, fækkað mikið.“ skrifar hann.

Lesa má pistilinn hér.

Til baka