Kjaramál og stofnanasamningur
24 maí. 2024
Nú standa yfir kjarasamningsviðræður LL við ríkið. Því miður náðum við ekki því markmiði okkar að láta samning taka við af samningi eins og á síðasta ári. Þegar litið er í baksýnisspegilinn verður að segjast að sá samningur var miðað við þróunina í samfélaginu alveg ótrúlega góður með um 8% launahækkun, hærra helgidagaálagi og smávægilegum lagfæringum á vaktahvata. Það varð ljóst strax síðasta haust þegar almenni markaðurinn lagði af stað í samninga að í því árferði sem nú er yrðu samningar með öðrum hætti og ekki yrði farið fram með ítrustu launakröfur heldur yrði áhersla lögð á að stuðla að lækkun vaxta og verðbólgu.
Á þann hátt var samið á almenna markaðnum en því miður hefur orðið bið á því að vextir hafi lækkað í kjölfar kjarasamninga en vonir eru bundnar við að Seðlabankinn bíði efir að samningar klárist á opinbera markaðnum áður en farið verður í vaxtalækkun. LL hefur verið í samningaviðræðum síðan í mars um sín sérmál en að auki er verið að semja um sameiginleg mál allra ríkisstafsmanna, t.d. vinnutíma, bakvaktir og veikindarétt.
Árið 2022 gerði LL könnun með aðstoð Vörðu rannsóknarstofu vinnumarkaðarins þar sem við leituðum eftir því að fá fram þær áherslur sem lögreglumenn vildu leggja áherslur á í kjarasamningsviðræðum. Við höfum haft þau svör að leiðarljósi í okkar viðræðum. Þar kom m.a. fram áhersla á vaxtalækkun. Í könnuninni kom því miður líka fram mikil óánægja lögreglumanna með gildandi stofnanasamning sem gerður var í upphafi árs 2021 en um 90 % lögreglumanna voru óánægðir með þann samning og framkvæmd hans. Helsta óánægjan var með skakka vörpun í starfaflokka, að ekki væri hægt að virkja alla þætti samningsins og að sjálfvirkar starfaldurshækkanir hafi verið samdar burt. Við þessu hefur núverandi stjórn LL reynt að bregðast en er sniðinn þröngur stakkur til þess.
Rétt er þó að taka fram að þó svo sjálfkrafa starfsaldurhækkanir hafi verið felldar út þarf það ekki að þýða að þær geti ekki verið hluti af stofnanasamningi og komið inn í persónubundna þætti. Stórt atriði í óánægju með samninginn er að í honum stendur gjarnan „heimilt er“ í stað „skal“. Lögreglumönnum hefur þótt halla á sig með þessu orðalagi miðað við stofnanasamninga sumra annarra stéttarfélaga. Þó svo að stofnanasamningurinn sé ekki beinn hluti af þeim viðræðum sem eru núna í gangi um heildar kjarasamning, hefur forysta LL þó verið að beita sér til þess að reyna að laga þá skekkju sem er á stofnanasamningnum og möguleiki er á að það takist að einhverju marki. Erfiðara getur verið að fá sjálfvirkar starfsaldurshækkanir til baka. Þáverandi forysta LL ákvað með vilja að semja þær út og fá í staðin aukningu í persónubundna- og tímabundna þætti. Eins og öllum er nú orðið ljóst hefur það ekki gengið eftir eins og vonast var til.
Ýmsar skýringar hafa verið sett fram fyrir því hvers vegna LL ákvað að semja með þeim hætti að leggja af sjálfvirkar starfsaldurshækkanir. Því var trúað að aðrir þættir gætu skilað hærri launum, t.d. aukin menntun og mat á hæfni einstaklinga. Á sínum tíma sagði í kynningum með stofnanasamningi að eldri samningur hafi verið botnfrosinn og m.a. bent á að engar hækkanir væru eftir 15 ár í starfi.
Ég held að það sé ljóst að LL lét plata sig í þessum samningum. Mér er sagt að þau skilaboð sem LL hafi fengið væru að ríkið væri alls staðar hjá sínum launþegum að taka þessar sjálfvirku hækkanir út. En niðurstaðan í dag er sú að önnur stéttarfélög eru enn með þessar hækkanir.
LL ákvað sjálft að semja í burtu þessar sjálfvirku hækkanir og til þess að fá þessar hækkanir til baka þarf að opna stofnanasamninginn og breyta honum aftur frá grunni. Til þess að það gerist þurfa báðir aðilar að vera sammála um að fara í þær viðræður.
Því miður koma þessar sjálfvirku hækkanir ekki aftur inn þó svo að LL krefjist þess heldur þarf að semja um það á milli samningsaðila og annað þá mögulega að víkja í staðinn. LL getur ekki litið fram hjá því að einhverjir félagar þess hafa nú þegar fengið hækkanir samkvæmt nýjum samningi og erfitt getur verið að vinda ofan af þeim og LL getur aldrei samþykkt launalækkun einstakra félaga sinna. Öll þekkjum við helstu rök lögreglustjóra fyrir stöðunni í dag, sem eru að ekki hafi nægjanlegt fé fylgt til þess að virkja alla hluta stofnanasamningsins. Á þingi LL í Eyjafirði nú í lok apríl kom fram sú tillaga að láta félagsdóm kanna hvort að forstöðumönnum stofnana sé stætt á að skrifa undir samning sem þeim er ljóst að þeir geti ekki staðið við. Sú tillaga er að sjálfsögðu í skoðun hjá stjórn LL.
Þó svo að samningaviðræður sem nú eru í gangi snúist um heildarkjarasamning er verið að gera tillögur um að nota hluta af því fé sem þar er til skiptanna til þess að koma til móts við þá óánægju sem hefur verið með stofnanasamninginn og vonir eru um að það takist. Það er þó rétt að ítreka aftur í lokin að sá samningur sem nú er verið að ganga frá miðast við hóflegar launahækkanir auk inngripa frá stjórnvöldum í ýmsu formi til þess að hægt sé að bæta haga heimilanna og ná niður vöxtum og verðbólgu. Lægri vextir af lánum þó ekki væri nema um 3% ættu að geta skilað hundruðum þúsunda í vasa lögreglumanna. Ég bind vonir við að í lok maí eða byrjun júní geti verið tilbúinn heildarkjarasamningur til kynningar fyrir lögreglumenn sem svo í framhaldinu færi til atkvæðagreiðslu.
Fjölnir Sæmundsson, formaður LL, maí 2024.