Fréttir

Yfirlýsing stjórnar LL 28. júní 2024

28 jún. 2024

Í nýlokinni atkvæðagreiðslu félagsmanna Landssambands Lögreglumanna (LL) höfnuðu 67,91 % þeirra sem atkvæði greiddu nýgerðum kjarasamningi LL og fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Þegar í kjölfarið hófst vinna samninganefndar LL við greiningar á því hvaða hlutar samningsins urðu þess valdandi að félagsmenn LL höfnuðu honum. Stjórn félagsins fundaði í gær þar sem rætt var um uppkomna stöðu og næstu skref. Er það mat stjórnar að helstu ástæður þess að kjarasamningi var hafnað liggi í óánægju með stofnanasamning frá árinu 2021 en eins og niðurstöður skoðanakönnunar frá árinu 2023 bera m.a. með sér er mikill meirihluti LL-félaga óánægður eða mjög óánægður með stofnanasamning. Mun LL á næstu dögum fara nánar yfir og greina stöðuna og m.a. standa fyrir nýrri skoðanakönnun meðal LL-félaga. Verða niðurstöður þeirrar könnunar nýttar í kröfugerðir við samningaborðið og til áframhaldandi viðræðna við gerð kjarasamnings.

Fyrir þeim kjarasamningi sem nú hefur verið hafnað lágu skýr markmið og viðræðuáætlun samningsaðila frá árinu 2023. Ákveðinn rammi hafði verið markaður á almennum vinnumarkaði með launalið og margvíslegar aðgerðir stjórnvalda komu einnig inn. Þá hafði einnig verið samið um ýmsar úrbætur í sérmálum og sameiginlegum málum. Einnig hefur vinna samninganefndar undanfarnar vikur snúist um gerð heildarsamnings, þar sem ýmsar bókanir fyrri ára, viðaukar, textaskýringar o.fl. voru uppfærðar. Öllu framangreindu hefur nú verið hafnað með meirihluta greiddra atkvæða. Verður unnið með þá stöðu sem uppi er og út frá niðurstöðunni.

Þegar sú staða er uppi að kjarasamningi hefur verið hafnað í atkvæðagreiðslu er um það að ræða að málið færist aftur á byrjunarreit. Sú ábyrgð hvílir á samningsaðilum að setjast aftur að samningaborðinu og reyna semja upp á nýtt. Hefur þegar verið brugðist við með erindi félagsins til lögreglustjóra er varðar stofnanasamning auk þess sem fundað hefur verið með samninganefnd ríkisins í kjölfar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. Stjórn LL einsetur sér að halda vinnunni ótrauð áfram. Mun samninganefnd félagsins funda áfram með viðsemjendum með það að markmiði að ná fram bættum kjörum í nýjum kjarasamningi fyrir lögreglumenn.

Fjölnir Sæmundsson formaður

Til baka